Í öllum regnbogans litum
Sumir eru gæddir þeirri náðargáfu að vera miklir hugmyndasmiðir. Einhverjar hugmyndir verða að veruleika á svipstundu, aðrar gerjast og ýmist lognast út af eða kvikna til lífsins. Það að mannskepnan splundri út þessum hugmyndum í massavís, er mér hulin ráðgáta. Eitt er þó víst, að ég er ekki að geta af mér hugmyndir svo nokkru nemi. Er afskaplega aftarlega á merinni hvað það varðar. Hvort heldur á heimilinu eða í vinnunni. Á hins vegar afar auðvelt með að vinna úr hugmyndum sem fæddar eru og lýsi sjálfum mér sem ljósmóður í þeim málum.
Frúin er afskaplega hugmyndarík og hefði sennilega átt að feta sig áfram á þeirri braut. Fær þær í dúsínum og ég má hafa mig allan við að vinna úr þeim þegar heim er komið. Ekki svo að maður hafi ekki annað að gera, þetta bara vinnur sig ekki sjálft. Þarf oft að spýta í lófana til að hafa við henni. Hugmyndir að heimilishaldi, uppröðun á húsgögnum, útskiptum á heimilisbílnum, ferðalögum í nútíð eða framtíð, hvaðeina. Þið þekkið þetta vonandi öll og þurfið væntanlega að velta einhverjum hugmyndum fyrir ykkur á hverjum degi. Ákveða hvað gera skuli.
Hef farið nokkrum sinnum í persónuleikapróf og alltaf kem ég eins út úr þeim. Breytist ekkert, batna hvorki né versna. Snýting á borði Íslenskrar erfðagreiningar. Einhverjir þurfa þó að vera í þessum kassa, annars gætu snillingarnir ekki komið sínum hugmyndum á framfæri. Niðurstöðurnar sýna að ég er áreiðanlegur og umhyggjusamur, fylginn mér og réttsýnn, en vantar tilfinnanlega frjósemina. Það er að segja í hugsun, ekki hinu. Velti því oft fyrir mér, hvernig ég kemst á lappir á hverjum morgni, en það gerist eflaust með hjálp og dugnaði annarra, fólksins úr hinum kössunum.
Horfi stundum á börnin mín í þessu samhengi. Þau þrjú hafa algerlega ólíka persónuleika, svo jaðrar við endurskoðun. Hvernig má það eiginlega vera, að þau alast upp innan sömu veggja, heilræðin þau sömu en síðan algert litróf þegar út í lífið er komið. Undursamlegt engu að síður. Elska regnbogann í allri sinni dýrð.