Karlakórinn
Karlakórinn

Aðsent

Í ofbeldissambandi við sveitarfélagið?
Fimmtudagur 12. október 2023 kl. 10:25

Í ofbeldissambandi við sveitarfélagið?

Þegar rætt er um Sveitarfélagið Voga kemur mjög fljótt inn í umræðuna Ungmennafélagið Þróttur. Að umræðan fari í þá áttina er ekkert skrítið því að félagið hefur verið, að öllum öðrum ólöstuðum, flaggskipið í kynningu á sveitarfélaginu síðustu ár. Aldrei er rætt um félagið með öðrum hætti en að vísað sé til nafns sveitarfélagsins, Þróttur Vogum. Félagið er því besta auglýsingin sem þetta sveitarfélag hefur haft undanfarin ár, auglýsing sem er þúsund sinnum betri en nokkur auglýsing sem auglýsingastofa getur framleitt – og þúsund sinnum ódýrari. Þróttur hefur átt lið í efstu deild í blaki, næstefstu deild í körfubolta og knattspyrnu og stundar öflugt barnastarf í fjölmörgum íþróttagreinum. Nú hefur félaginu verið treyst til þess að halda Landsmót 50+ árið 2024 – sem er enn ein rósin í hnappagat UMFÞ.

Til þess að félag geti verið farsælt þarf það góða bakhjarla og hefur Sveitarfélagið Vogar verið þar fremst í flokki síðustu ár – og sveitarfélagið hefur svo sannarlega notið góðs af því samstarfi; allir muna átakið sem Þróttur ýtti úr vör síðastliðið haust þar sem hvatt var til barneigna í Vogunum. Fékk það skemmtilega framtak gríðarlega athygli og voru fjölmiðlar duglegir að dreifa boðskapnum. Einnig hefur sveitarfélagið veitt UMFÞ margar viðurkenningar og hvatt félagið til dáða sem er gott dæmi um frábært viðhorf sveitarfélags til íþróttafélagsins í bænum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar og bæjarstjóraskipti fóru samskiptin hins vegar að súrna. Tekin var u-beygja hjá bæjarstjórn í stefnumálum gagnvart UMFÞ og hafa þau sinnaskipti nú þegar komið illa niður á félaginu. Samskipti sem alltaf hafa verið góð eru nú komin í ruslflokk.

Í dag hefur sveitarfélagið skorið niður fjármagn til félagsins sem getur talist eðlilegur hlutur ef hart er í ári. Hitt er verra og alvarlegra að sveitarfélagið hefur ekki treyst sér til þess að standa við gerða samninga og neitað að greiða reikninga á móti vinnuframlagi. Sveitarfélagið hefur neitað að virða stjórnskipun félagsins og neitað að eiga í samskiptum við formann félagsins og formenn deilda – sem auðvitað er forkastanlegt. Þá hefur sveitarfélagið haft skoðun á því hvað starfsfólk UMFÞ geri utan síns vinnutíma og í raun hefur félagið verið sem strengjabrúða sveitarfélagsins í rekstri íþróttamiðstöðvar; þar sem bæjaryfirvöld hafa talið það í sínum verkahring að fjarstýra rekstrinum – sem þó hafði verið útvistað til Þróttar – með oft slæmum fjárhagslegum afleiðingum fyrir UMFÞ. Sveitarfélagið hefur verið mun uppteknara af því að útdeila fermetrum íþróttamiðstöðvar til fjarskipta- og póstþjónustufyrirtækja á kostnað íþrótta- og félagsstarfs. Það er eins og bæjaryfirvöld átti sig ekki á því til hverra nota íþróttamannvirki eru ætluð. Það vantar bara að sveitarfélagið hafi skoðun á því hvernig félagið fer í dósasafnanir, svona til þess að fullkomna lágkúruna.

Á aukaaðalfundi knattspyrnudeildarinnar þann 29. ágúst sl. óskaði formaður deildarinnar eftir  lausn frá embætti og gaf upp sem meginástæðu; aukið álag vegna slæmra samskipta við bæjaryfirvöld. Þess má geta að ekki tókst að manna stjórn deildarinnar og þurfti að fresta fundi vegna þess.

Á síðustu mánuðum hefur Ungmennafélagið Þróttur sagt upp samningi um rekstur íþróttamiðstöðvar og samningi um rekstur knattspyrnuvallar og má lesa úr því að félagið vinni að því að losa sig úr samstarfi við sveitarfélagið. Það má því í ljósi sögunnar auðveldlega sjá það fyrir að skertur opnunartími sundlaugar og fækkun stöðugilda íþróttamiðstöðvar sé framundan.

Að staðan skuli vera þessi tíu mánuðum fyrir Landsmót 50+ er sárgrætilegt. Það er ömurlegt að ekki skuli vera tilhlökkun fyrir verkefninu. Að ekki skuli ríkja traust milli félagsins og bæjarins er að öllu leyti óásættanlegt.

Hvati minn að þessum skrifum er sá að ég hitti stjórnarmann á göngum íþróttamiðstöðvar og spurði hvernig gengi hjá félaginu. Hann tjáði mér að upplifunin væri sú að félagið væri fast í ofbeldissambandi við sveitarfélagið.

Að lokum vil ég hvetja kjörna fulltrúa sveitarfélagsins til þess að setjast niður með stjórn UMFÞ og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma hlutunum í fyrra horf. Þeim sjálfboðaliðum sem gefa sig í trúnaðarstörf fyrir félagið á að hlakka til þeirra krefjandi verkefna sem blasa við –  en ekki að hlakka til þess að losna úr störfum fyrir félagið.

Það skal tekið fram að þessi skrif eru sýn undirritaðs á stöðuna sem óbreytts félagsmanns. Undirritaður gegnir engum trúnaðarstörfum fyrir félagið.

Gunnar Júlíus Helgason.