Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Í jarðminjagarði skiptir virðing fyrir náttúrunni öllu
Fimmtudagur 30. janúar 2014 kl. 16:48

Í jarðminjagarði skiptir virðing fyrir náttúrunni öllu

Bæjarstjórinn í Grindavík Róbert Ragnarsson og formaður Reykjanes jarðvangs sendir mér línu á vf.is 27. þ.m. þar sem hann er að svara grein minni „Skemmdarverk í ferðaþjónustunni“ í sama vefmiðli 20. þ.m. Bæjarstjórinn fer mjög frjálslega með staðreyndir í þessari grein sinni svo ekki sé nú meira sagt. Hann byrjar á því að nefna niðurrif og skrifar svo: „Velgengni jarðvangsverkefnisins virðist fara í taugarnar á honum og sérstaklega virðist honum í nöp við Grindvíkinga.“ Síðar kemur hann að ráðstefnunni og fjármálum vegna hennar.


Bara svo það sé á hreinu þá hef ég átt mjög gott samstarf við fjölda Grindvíkinga og virði þá mikils. Þar á ég marga góða vini og aðila sem unnu með mér í stjórn Ferðamálasamtaka Suðurnesja (FSS) í þau 10 ár sem ég var þar formaður. Á þessum 10 árum var lyft grettistaki í ferðamálunum á Suðurnesjum með samhentri stjórn og stofnuðum við m.a. Markaðsstofuna, gáfum út blöð og bæklinga, héldum úti heimasíðu, menningarstarfsemi og stóðum að fjölda ráðstefna og verkefna um allt Reykjanesið. Hafa ýmsir haft á orði að á þessu tímabili hafi Suðurnesin komist á kortið í ferðamálum. Viðskilnaður okkar var því mjög góður og allt tal um annað mjög ósmekklegt. Ég er sérlega ánægður með það mikla starf sem við unnum og fór ég mjög sáttur frá Markaðsstofunni og FSS.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Upphaf jarðvangs á Reykjanesi
Eitt af þeim verkefnum sem FSS kom af stað var stofnun jarðvangs (geoparks) á Reykjanesi og hófst það formlega með bréfi til Grindavíkurbæjar og Reykjanesbæjar 10. ágúst 2010.
Í þessu bréfi óskar FSS eftir samstarfi við Grindavíkurbær um rekstur og stofnun jarðminjagarðs eða geoparks á ysta hluta Reykjanessins. Þetta erindi FSS var tekið fyrir í bæjarráði Grindavíkurbæjar 1. september sama ár þar sem erindinu er hafnað á þeirri forsendu að Grindavíkurbær geti ekki „falið öðrum aðilum en sveitarfélaginu svæðið til rekstrar og eftirlits“!  


Samhljóða bréf var sent bæjarstjórn Reykjanesbæjar og tók bæjarráð Reykjanesbæjar vel í erindið. Upp úr því  er stofnaður svokallaður Hundrað gíga garður í landi Reykjanesbæjar þar sem FSS fer með rekstur og eftirlit. Þetta er fyrsti jarðminjagarðurinn á Reykjanesi. Þetta svæði nær yfir stærstan hluta þess svæðis þar sem plötuskilin milli Evrópu og Ameríku koma úr sjó. Þetta er jafnframt það svæði sem  úttektaraðilar frá Europian Geoparks telja einstakt á heimsvísu og réttlætir viðurkenningu af hálfu Unesco sem slíkt.   


Framhaldið af hálfu bæjarstjórnar Grindvíkur í þessu máli var að tæpu ári síðar sendir bæjarstjóri þeirra öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum, HS orku, Bláa Lóninu, FSS og Keili boð um þátttöku við stofnun jarðminjagarðs á Reykjanesi með Grindvíkingum þar sem allt land Grindavíkur verði hluti jarðminjagarðs. Eins og flestir vita þá er Grindavík landstærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum og nær m.a. yfir stærstan hluta Reykjanesfólkvangs. Það varð úr eins og ég sagði í fyrri grein minni að leyfa Grindvíkingum að ráða þessu og ná þannig samstöðu á svæðinu og þeir stýrðu verkefninu frekar en láta það daga uppi. Varð bæjarstjórinn í Grindavík formaður undirbúningsstjórnar og síðar jarðminjagarðsins og er enn. Það gefur auga leið að það er mikill munur á stofnun jarðminjagarðs þar sem stjórnarmenn eru flestir embættismenn sveitarfélaga og stórfyrirtækja svæðisins eða undir forustu grasrótarsamtaka eins og FSS.


Okkur sem bjuggum hann til er ekki sama hvernig til tekst
Það skal alveg viðurkennt að ég var ekki mjög sáttur við að afhenda verkefnið frá FSS enda tvíbent að þeir sem sitja beggja megin borðs ráði för.  En bæjarstjórinn í Grindavík fékk þennan króa í hendurnar og ber ábyrgð á velferð hans. Það þýðir ekki að hann geti gert hvað sem honum sýnist því okkur sem bjuggum hann til er ekki sama hvernig til tekst. Það var ekki stórmannlegt skref þegar formaður stjórnarinnar aflýsti ráðstefnunni um jarðminjagarða sl. haust sem átti að vera kynning á verkefninu. Hann tímdi ekki að halda kynninguna og móðgaði um leið alla fulltrúana sem var búið að boða. Bæjarstjórinn segir að kostnaðurinn hafi hlaupið á milljónum og þess vegna hafi þurft að hætta við. Því er til að svara að þegar kynningarferli er í gangi á slíku verkefni eins og þessu þá er alveg ljóst að það verður að leggja út í einhvern kostnað. Þegar höfðu fengist styrkir til að standa undir þeim kostnaði sem fallinn var til og búið að tryggja meira. Kostnaður sveitarfélaganna hefði því verið hverfandi miðað við ávinninginn fyrir jarðminjagarðinn. Það sem sýnir einnig vel þröngsýni bæjarstjórans og formannsins í málefnum ferðaþjónustunnar er þegar hann tilkynnir að Grindavík ætli að hætta samstarfinu við höfuðborgarsvæðið um Reykjanesfólkvang því nú sé kominn jarðminjagarður. Sem betur fer tókst með hjálp bæjarfulltrúa í Grindavík að snúa ofan af þessu útspili formannsins og hann gerður afturreka með þá hugmynd að leggja niður Reykjanesfólkvang.


Gróðurhús taki yfir land eins og 30 sumarhúsalóðir
Formaður jarðvangsins og bæjarstjórinn segir í svargrein sinni að framtíð Reykjanes jarðvangs sé björt og vona ég að svo sé. Fyrstu skrefin lofa hinsvegar ekki góðu og það sem er á leiðinni verður ekki til að bæta úr. Undirbúningur að risa gróðurhúsi rétt hjá Gunnuhver gæti auðveldlega drepið allar væntingar um viðurkenningu Unesco á Reykjanes jarðvangi inn í Europian Geoparks. Til að fólk átti sit á stærðinni að þá er meðal stærð á sumarhúsalóð 0,5 hektari en þetta gróðurhús er áætlað 15 hektarar eða eins og 30 sumarhúsalóðir. Hugmynd um risa gróðurhús í landi Grindavíkur er ekki alveg ný af nálinni því til stóð að það yrði reist á hrauninu rétt vestan við Bláa Lónið. Sú hugmynd fékk ekki góðar viðtökur hjá þeim í Bláa Lóninu og var því þá skákað að Gunnuhver. Ef slíkt gróðurhús truflar starfsemi Bláa Lónsins þá er nokkuð ljóst að það sama á við um aðra ferðaþjónustu eins og við Gunnuhver og í Hundrað gíga garðinum. Þó svo að atvinnustarfsemi rúmist vel innan jarðminjagarðs eins og þeir eru hugsaðir þá er ekki sama hvernig það er gert. Það verður að gæta hófs og bera virðingu fyrir náttúrunni í jarðminjagarði, það skiptir öllu. Því miður stefnir ekki í það undir þeirri forustu sem nú er um Reykjanes jarðvang. Það er ekki gott að vera í tveimur reyfum.   

Kristján Pálsson.