Í hverju felst stuðningur Oddnýjar?
Loksins kom að því að það heyrðist í formanni fjárlaganefndar og þingmanni Samfylkingarinnar Oddnýju G Harðardóttur um atvinnumál á Suðurnesjum. En svo sannarlega voru skrifin ekki jákvæð eða uppörvandi heldur var hún eingöngu að setja út á skrif Árna Sigfússonar bæjarstjóra í Reykjanesbæ um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. Hún reyndi að klóra í bakkann og snúa dæminu við. Greinin flokkast undir það sem fomaður Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ kallar „umkenningarstjórnmál“, en eins og sjá má í greinum þeirra flokkssystkina einkennast slík skrif af því að kenna öðrum um en benda ekki á aðrar lausnir.
Eitt af þeim verkefnum sem geta verulega bætt hag bæjarbúa eru áframhaldandi framkvæmdir við höfnina í Helguvík. Ef ekki hefði verið farið í framkvæmdir við höfnina, sem vissulega voru dýrar, hefðum við ekki átt kost á að fá álver, kísilver og mörg önnur verkefni sem þurfa góða hafnaraðstöðu. Stuðningur frá ríkinu í framkvæmdum við höfnina og að klára tengd verkefni getur þýtt að höfnin skili ríkissjóði um milljarði króna á mánuði næstu árin.
Á þessum stuðningi hefur staðið þrátt fyrir mótbárur Oddnýjar. Hún segist styðja atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, en þessi stuðningur virðist aðeins í orði en ekki á borði. Nærtækasta dæmið er að hún er ekki einn þeirra 29 þingmanna sem hefur lagt til að framkvæmdum við höfnina verði lagt lið. Það er því ekki ósanngjarnt að spyrja: Í hverju felst þinn stuðningur við atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum Oddný?
Stuðningur Oddnýjar og félaga er varla við verkefnið um einkasjúkrahús, því þar hefur staðið á svörum frá ríkinu í tvö og hálft ár. Þessa bið eftir svörum kallar Oddný „einhverja óvissu um stund“, eins og henni þyki ekkert eðlilegra. Þegar óvissa ríkir í svo langan tíma er eðlilegt að menn leiti annað með slík verkefni. Eflaust eru tækifæri fyrir slíka aðila víða erlendis. Þetta þýðir að við missum ekki bara tækifæri til fjárfestingar, heldur líka störf fyrir heilbrigðisstarfsfólk, sem einmitt hefur verið að flýja landið í stórum stíl. En kannski er það líka í lagi að við verðum í einhverri óvissu um stund þegar kemur að heilbrigðiskerfinu.
Ég get ekki annað en tekið undir orð bæjarstjórans. Það eru næg færi, en ríkisstjórnin hangir á boltanum. Ýmsir skrifa um það að Sjálfstæðismenn verði að axla ábyrgð á ástandinu. En hvað er það annað en að axla ábyrgð þegar unnið er af krafti að framgangi verkefna og bent á það þegar mönnum þykir hægt ganga?
Einar Þ. Magnússon
Bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og formaður atvinnu og hafnarráðs