Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 24. maí 2000 kl. 18:56

Í HÁLFLEIK

Ágætu Reyknesingar Nú eru liðin 2 ár frá síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þessi tími hefur verið mjög skemmtilegur og að mínu mati hefur mjög margt áunnist í Reykjanesbæ. Í þessari grein langar mig til að gera lítillega grein fyrir hvernig málin horfa við mér þessa stundina, bæði það sem liðið er og það sem framundan er. Eins og aðrir flokkar lagði Framsóknarflokkurinn fram vandaða stefnuskrá fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og lofuðum við að vinna að ýmsum góðum málum, fengjum við til þess umboð kjósenda. Það gekk eftir og höfum við bæjarfulltrúar flokksins, undirritaður og Skúli Þ. Skúlason forseti bæjarstjórnar, lagt allt kapp á að sinna þeim málum sem áhersla var lögð á í stefnuskránni. Það hefur gengið mjög vel og munum við gera grein fyrir þeim síðar. Einnig hvetjum við alla bæjarbúa til þess að fylgjast vel með hvernig gengur. Ég ætla ekki að telja upp öll þau mál sem unnið hefur verið að á þessu tímabili. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að skólamálin hafa verið sett í öndvegi. Auk hinna ýmsu verkefna höfum við lagt áherslu á ný vinnubrögð bæjaryfirvalda s.s. í stefnumótun og áætlanagerð. Í fyrsta sinn liggur nú fyrir ítarleg þriggja ára verkefna- og fjárhagsáætlun fyrir Reykjanesbæ og einnig 10 ára rammaáætlun um fjárhag sveitarfélagsins og niðurgreiðslur skulda. Eitt af því sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt ríka áherslu á er skilgreining á þjónustustigi einstakra deilda og stofnanna Reykjanesbæjar. Í sumum málaflokkum er þjónustustigið mjög auðskiljanlegt s.s. í skólamálum. Þar er einfalt að mæla fjölda leikskólaplássa, nemenda pr. árgang í grunnskólum, fjölda nemenda sem komast að í tónlistarskólanum o.s.frv. Því er ekki þannig farið með alla málaflokka. Þess vegna höfum við lagt við mikið kapp á að skilgreina mælikvarða og þjónustustig allra málaflokka og er sú vinna í fullum gangi. Þegar henni er lokið verður hægara að áætla rekstrarkostnað hvers málaflokks og ákveða þannig þjónustustigið eftir því hversu miklu fjármagni bæjaryfirvöld vilja ráðstafa í hvern málaflokk á hverjum tíma. Árangursstjórnun og þjónustusamningar Þegar skilgreiningu þjónustustigs hvers sviðs er lokið geta bæjaryfirvöld gert þjónustusamninga við einstakar deildir eða stofnanir og um leið skilgreint mælikvarðana sem miða á við þegar þjónustustigið verður metið. Þetta fyrirkomulag opnar ýmsa möguleika fyrir stjórnendur stofnana. Ef við gefum okkur að bæjaryfirvöld veiti nægilegt fjármagn miðað við umsamið þjónustustig og stjórnendum og starfsmönnum stofnanna tekst betur upp í rekstri og sparnaði, án þess að skerða þá þjónustu sem skilgreind hefur verið, eiga þeir að fá að njóta ávinningsins að einhverjum umsömdum hluta. Svo einfalt er það. Það er í þessum rekstri eins og öðrum, að ef veitt þjónusta er í samræmi við væntingar viðskiptavina eru þeir sáttir. Óánægja viðskiptavina (bæjarbúa) verður fyrst til þegar þeir reikna með meiri eða betri þjónustu en þeir fá. Því er mikilvægt að skapa ekki meiri væntingar en til stendur að uppfylla og að öllum sé ljóst hvað sveitarfélagið hyggst gera í hverjum málaflokki. Í kosningum gefst kjósendum síðan kostur á að láta ánægju eða óánægju sína í ljós með atkvæði sínu. Að lokum Í þessari grein hef ég aðeins tæpt á nokkrum atriðum sem ég vildi deila með ykkur lesendum. Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ eru alltaf til viðtals á mánudögum frá kl. 18-19 í Framsóknarhúsinu við Hafnargötu 62. Ég vil leyfa mér að hvetja alla sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri til þess að mæta eða hringja á áðurnefndum tímum og ræða málin. Með vinsemd og virðingu Kjartan Már Kjartansson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024