Í dag skammast ég mín fyrir að vera Grindvíkingur!
Mér sárnaði að lesa pistil eftir Sigmar Júlíus Eðvarðsson á Grindavíkurvefnum, og fór að velta því fyrir mér hvort að þetta væri rétti vettvangurinn til að koma þessum skoðunum sínum á framfæri. Sigmar hefur verið bæjarfulltrúi Sjálfsstæðisflokksins í Grindavík síðan 2002.
Við lestur þessa pistils sér maður að það var mikið lagt í ritsmíðina. Pistillinn líkist einna helst nútímaljóði; yfirfullt af myndlíkingum og háfleygum orðum. En því miður er útkoman heldur rembingsleg og greinilega enginn eðalpenni þar á ferð, ef marka má orðbragðið.
Þessi pistill er það fyrsta sem blasir við manni þegar opnað er síðu bæjarins. Til samanburðar opnaði ég síður nærliggjandi bæjarfélaga og það sem tók á móti manni þar voru heldur fallegri og „eðlilegri“ greinar, sem eiga betur heima á heimasíðu bæjafélaganna. Sem dæmi má nefna að á vef Reykjanesbæjar var talað um vel heppnaða Ljósanótt. Á heimsíðu Garðs var grein um útivistartíma barna og á síðu Sandgerðisbæjar var frétt um menningarlega og sögulega gönguferð. Þessar fréttir eru eitthvað sem snertir íbúa bæjarfélagsins. Grein Sigmars er hins vegar hans persónulega skoðun og umræða sem hann ætti frekar að tjá sig um innan veggja heimilisins eða við sína vini, ekki skrifa og staðhæfa, eins og heilagan sannleika á heimasíðu bæjarfélagsins.
Þeir sem taka að sér pólitískt starf eru mennsk eins og hver annar í samfélaginu. Fólk má hafa skoðanir og skipta um skoðanir eftir aðstæðum. Eftir tæp tuttugu afkastamikil ár í Grindavík, ákveður mamma, sr. Jóna Kristín, að halda aftur heim á sínar æskuslóðir og það ætti engum að þykja athugunarvert. Hún er búin að skila af sér góðri og uppbyggilegri vinnu í bæjarfélaginu, bæði þegar hún starfaði sem prestur og sem bæjarstjóri. Þess vegna finnst mér að Sigmar Júlíus Eðvarðsson og aðrir Grindvíkingar eigi að sýna henni meiri virðingu og skilning en kemur fram í grein Sigmars. Einnig vil ég sjá fyrirgefningarbeiðni á heimsíðunni og að þessi grein verði fjarlægð hið fyrsta.
Berta Dröfn Ómarsdóttir.