Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Í aðdraganda alþingiskosninga
Miðvikudagur 2. maí 2007 kl. 23:31

Í aðdraganda alþingiskosninga

Tíminn líður óðfluga og nú styttist til alþingiskosninga. Margir eru reiðir og óánægðir með gjörðir ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í ýmsum málum á undanförnum árum, og aðgerðarleysi í öðrum málum.

Menn velta því fyrir sér alls kyns hugmyndum um hvernig helst verði komið í veg fyrir áframhaldandi setu þessarar stjórnar að afstöðnum kosningum þann 12. maí næstkomandi. Talað hefur verið um framboð aldraðra og öryrkja saman á lista, til þess að vekja athygli á slökum árangri í málum er varða þessa hópa. Sennilega verður ekkert af því framboði. Varla á landsvísu.

Mér finnst þetta alveg út í hött og rökleysa að reikna með því að þannig framboð, sem snýst aðeins um afmarkað málefni, leiði til árangurs innan sala Alþingis.

Ég minni á að stjórnarandstaðan á Alþingi sameinaðist um tillögu í málum aldraðra sem nálgaðist það að vera í takt við áherslur og kröfur Samtaka aldraðra um kjör þeirra.

Eðlilegast til árangurs í þeim efnum þætti mér vera að efla þá flokka til góðra verka á næsta kjörtímabili. Slæmt er þó þegar einstakir frambjóðendur reyna að koma með yfirboð í málflutningi sínum til að vekja á sér og sínum flokki athygli. Það hefur gerst ítrekað í umræðunni.

Með því að skipa tuttugasta sæti á framboðslista Vinstri-grænna í Suðurkjördæmi hef ég tekið afstöðu. Ég mun leggja fram krafta mína fyrir þann flokk.

Ég vek athygli á því að Vinsti-græn  hyggjast standa vörð um svonefnt norrænt velferðarkerfi samfara því að afnema fátæktargildrur sem felast í okkar tryggingarkerfi. Vinstri-græn leggja áherslu á þau grundvallar mannréttindi, að allir hafi jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu og mennta ásamt jafnrétti í sem víðustum skilningi. Við teljum það sjálfsagðar grunnstoðir velferðar allra einstaklinga. Það hlýtur líka að vera hagur hvers samfélags að efla menntun, þroska og heilsu almennings. Hlúa vel að þeim sem eiga við heilsubrest að glíma og forðast hvers konar misrétti.

Vinstri-græn eru ekki með nein yfirboð. Við leggjum fram ákveðna og hreina stefnu í öllum málaflokkum og munum standa við hana.

Ríkisstjórnin hefur verið í kosningaham að undanförnu. Það sést best á hinum og þessum loforðum, sem hafa farið í loftið, um fjárveitingar til ýmissa verkefna. Nokkrar milljónir í þetta og hitt, tugir miljóna í annað o.s.frv. en framkvæmdatíminn á að dragast út næsta kjörtímabil og jafnvel lengur. Þetta er svipuð loforðafroða og jafnan hefur átt sér stað fyrir hverjar kosningar. En efndirnar gleymast gjarnan.

Stjórnarþingmenn vilja fá endurnýjað umboð sitt til næstu fjögurra ára. Halda þeir virkilega að hið pólitíska minni kjósenda sé svo stutt að þeir fái umboðið framlengt?

Nei! Menn muna ugglaust „lista hinna staðföstu þjóða“ sem stjórnarfeðurnir
fyrrverandi samþykktu við innrás Bandaríkjahers í Írak. Þá lúalegustu samþykkt sem gerð hefur verið í nafni íslenska lýðveldisins.

Karl G. Sigurbergsson.
Höfundur skipar 20. sæti á framboðslista Vinstri-grænna í Suðurkjördæmi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024