Hví fæ ég ekki svör?
4. júlí sl. sendi ég grein um eineltismál í VF.is og meðal annars í þeirri grein sendi ég spurningar til formanns og framkvæmdastjóra Keflavíkur íþrótta- og ungmennafélags svo og á formann ÍRB, einnig bað ég um svör frá bæjarstjóra og framkvæmdastjóra Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Þeir síðarnefndu svöruðu en ekki forsvarsmenn íþróttahreyfingarinnar og hlýt ég að spyrja hvers vegna fæ ég ekki svör.
Er það vegna þess að menn í íþróttahreyfingunni þora ekki að takast á við þau vandamál sem fylgja einelti eða er það vegna þess að menn vilja hafa þögnina að vopni með von um að þolendur gefist upp og gleymi? Þögnin er besti vinur gerandans. Það fylgir því mikil ábyrgð að vera í forystu hvort sem það er í atvinnulífinu eða í félagsstarfi, ábyrgð sem menn verða að vera tilbúnir að axla ef upp koma vandamál eins og einelti og kynferðisleg áreitni. Það kann að vera að vinaslit verði en það er ekkert á við það að vera þolandi eins og t.d. eineltis og fá ekki að tjá sig. Sárið á sálinni grær ekki. Ekki vil ég trúa því að það séu þessi skilaboð sem við viljum senda út í þjóðfélagið: Einelti er til staðar í sveitarfélagi okkar og það er í lagi svo framarlega sem við þegjum um það. Hvar er metnaðurinn í íþróttabænum Reykjanesbær? Sem uppalendur og forystufólk í félagsstarfi ber okkur að standa vörð um vellíðan barnanna okkar, slá um þau skjaldborg þannig að þau fái að þroskast og dafna sem einstaklingar óháð því hver þau eru. Það er með öllu ólíðandi að börn verði fyrir áreitni frá fullorðnum og að við sitjum bara hjá með hendur í vösum. Ég óska eftir því að fá svör við fyrirspurn minni frá forystumönnum í íþróttahreyfingunni.
Miðað við þær fréttir sem hafa verið að berast okkur í fjölmiðlum að undanförnu þá get ég ekki annað en spurt, getur verið að við séum ekki barngóð þjóð?
Að lokum langar mig að vitna í viðtal við ónafngreinda konu sem birtist í BB.is en hún sagði varðandi eineltismál: „Mergur málsins er einmitt sá að við veigrum okkur við að taka á svona málum þar sem við búum í litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla. Við viljum ekki styggja nágranna, foreldra skólasystkina, vini þeirra eða frændur. En kjósum við að sitja hjá og þegja til þess að geta heilsað þessu fólki úti í búð, mætt á prjónakvöld, eða horfst í augu við það óhrædd um að það hugsi manni þegjandi þörfina? Hver ver börnin okkar og stendur með þeim ef það eru ekki foreldrarnir? Ég kýs að geta horft til baka og þurfa ekki að naga mig í handarbökin fyrir að hafa þagað. Það er hlutverk okkar foreldranna að standa með börnum okkar og verja þau með kjafti og klóm, sérstaklega þegar þau eru það ung að þau geta það ekki sjálf.“
Með virðingu og vinsemd,
Jóhann Sævar Kristbergsson.