Hvert viljum við stefna í lýðræðismálum?
Þegar fulltrúalýðræðið var fundið upp, fyrir ekki svo löngu síðan, voru aðstæður allt aðrar en nú. Í þá daga var það einungis á færi örfárra manna að öðlast næga menntun og þekkingu til þess að geta haft skoðanir á og tekið ákvarðanir um það hvernig þjóðfélag væri best að byggja upp. Þess vegna var það fullkomin lausn að ómenntaður lýðurinn gæti valið sér menntaða fulltrúa til þess að sjá um alla ákvörðunartöku.
Í dag er öldin önnur. Við sem tilheyrum lýðnum erum alls ekkert ómenntuð og vitlaus lengur. Íslenska þjóðin er á meðal menntuðustu þjóða heims. Í nútímasamfélagi höfum við öll aðgang að sömu upplýsingunum og getum aflað okkur allrar þeirrar vitneskju sem við þurfum.
Mikil umræða hefur verið um það á meðal íslenskra og erlendra fræðimanna, að fulltrúalýðræðið sé að renna sitt skeið á enda. Það eru til aðrar útgáfur af lýðræði sem eru líkari því lýðræði sem kom fyrst til sögunnar í Grikklandi til forna. Þar þýddi lýðræði einfaldlega það að lýðurinn sjálfur færi með völdin. Á síðustu áratugum hafa komið fram nýjar hugmyndir um lýðræði, hugmyndir um svokallað rökræðulýðræði. Þar er gert ráð fyrir mun meiri þátttöku almennings í ákvarðanatöku heldur en í hinu hefðbundna fulltrúalýðræði. Slíkt rökræðu-og íbúalýðræði hefur verið reynt í löndum eins og Sviss, þar sem það hefur gefið mjög góða raun.
Helsta vandkvæði sem kenningar um opnara rökræðulýðræði hafa þurft að kljást við er hvernig það sé mögulegt í milljónasamfélögum að koma skoðunum allra íbúanna á framfæri. Þetta er vandamál sem við Íslendingar þurfum ekki að hafa áhyggjur af. Heildarfjöldi Íslendinga er á við frekar smáa borg í öðrum Evrópulöndum.
Það er lítið því til fyrirstöðu að upp væri tekið mun opnara lýðræði hér á Íslandi. Því ekki að kanna þann möguleika ítarlega áður en honum er hafnað?
Það er leiðinlegt að þær raddir skuli heyrast að almenningur sé ekki nógu hæfur til þess að taka afstöðu í stórum og flóknum málum. Þetta viðhorf ber ekki vott um mikla virðingu fyrir vitsmunum almennings.
Það eina sem þarf til þess að geta tekið afstöðu til stórra og flókinna mála er vilji til að fræðast og kynna sér mismunandi hliðar málsins. Það gerðu Hafnfirðingar af miklum áhuga í allan vetur, lifandi umræða fór af stað í samfélaginu þar sem allar raddir fengu að heyrast. Það skiptir fólk e.t.v. meira máli að kynna sér stór og flókin mál til hlítar þegar það veit að það getur haft áhrif á ákvarðanatökuna. Ef því er sagt að það sé búið að taka ákvörðunina og ekki orð um það meir, þá skiptir það engu máli hvaða afstöðu það tekur. Af hverju þá að leggja það á sig að kynna sér málið?
Ættum við ekki frekar að hvetja fólkið í landinu til þess að hafa skoðanir frekar en að letja það?
Samtökin Sól á Suðurnesjum efna til umræðufundar um lýðræði og rökræðu í safnaðarheimilinu Sæborgu í Garði á miðvikudagskvöld kl. 20. Þar gefst okkur gott tækifæri til þess að setjast niður og fræðast um hvaða möguleika við höfum á því að taka aukinn þátt í lýðræðinu í framtíðinni. Samtökin hvetja alla Suðurnesjamenn og aðra sem vilja taka þátt í opnum umræðum um lýðræðismál til að mæta. Nánari upplýsingar á sasudurnesjum.blog.is
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, M.A. í heimspeki og talskona samtakanna Sól á Suðurnesjum.
Í dag er öldin önnur. Við sem tilheyrum lýðnum erum alls ekkert ómenntuð og vitlaus lengur. Íslenska þjóðin er á meðal menntuðustu þjóða heims. Í nútímasamfélagi höfum við öll aðgang að sömu upplýsingunum og getum aflað okkur allrar þeirrar vitneskju sem við þurfum.
Mikil umræða hefur verið um það á meðal íslenskra og erlendra fræðimanna, að fulltrúalýðræðið sé að renna sitt skeið á enda. Það eru til aðrar útgáfur af lýðræði sem eru líkari því lýðræði sem kom fyrst til sögunnar í Grikklandi til forna. Þar þýddi lýðræði einfaldlega það að lýðurinn sjálfur færi með völdin. Á síðustu áratugum hafa komið fram nýjar hugmyndir um lýðræði, hugmyndir um svokallað rökræðulýðræði. Þar er gert ráð fyrir mun meiri þátttöku almennings í ákvarðanatöku heldur en í hinu hefðbundna fulltrúalýðræði. Slíkt rökræðu-og íbúalýðræði hefur verið reynt í löndum eins og Sviss, þar sem það hefur gefið mjög góða raun.
Helsta vandkvæði sem kenningar um opnara rökræðulýðræði hafa þurft að kljást við er hvernig það sé mögulegt í milljónasamfélögum að koma skoðunum allra íbúanna á framfæri. Þetta er vandamál sem við Íslendingar þurfum ekki að hafa áhyggjur af. Heildarfjöldi Íslendinga er á við frekar smáa borg í öðrum Evrópulöndum.
Það er lítið því til fyrirstöðu að upp væri tekið mun opnara lýðræði hér á Íslandi. Því ekki að kanna þann möguleika ítarlega áður en honum er hafnað?
Það er leiðinlegt að þær raddir skuli heyrast að almenningur sé ekki nógu hæfur til þess að taka afstöðu í stórum og flóknum málum. Þetta viðhorf ber ekki vott um mikla virðingu fyrir vitsmunum almennings.
Það eina sem þarf til þess að geta tekið afstöðu til stórra og flókinna mála er vilji til að fræðast og kynna sér mismunandi hliðar málsins. Það gerðu Hafnfirðingar af miklum áhuga í allan vetur, lifandi umræða fór af stað í samfélaginu þar sem allar raddir fengu að heyrast. Það skiptir fólk e.t.v. meira máli að kynna sér stór og flókin mál til hlítar þegar það veit að það getur haft áhrif á ákvarðanatökuna. Ef því er sagt að það sé búið að taka ákvörðunina og ekki orð um það meir, þá skiptir það engu máli hvaða afstöðu það tekur. Af hverju þá að leggja það á sig að kynna sér málið?
Ættum við ekki frekar að hvetja fólkið í landinu til þess að hafa skoðanir frekar en að letja það?
Samtökin Sól á Suðurnesjum efna til umræðufundar um lýðræði og rökræðu í safnaðarheimilinu Sæborgu í Garði á miðvikudagskvöld kl. 20. Þar gefst okkur gott tækifæri til þess að setjast niður og fræðast um hvaða möguleika við höfum á því að taka aukinn þátt í lýðræðinu í framtíðinni. Samtökin hvetja alla Suðurnesjamenn og aðra sem vilja taka þátt í opnum umræðum um lýðræðismál til að mæta. Nánari upplýsingar á sasudurnesjum.blog.is
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, M.A. í heimspeki og talskona samtakanna Sól á Suðurnesjum.