Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Hvert stefnum við í atvinnumálum hér á svæðinu?
  • Hvert stefnum við í atvinnumálum hér á svæðinu?
Fimmtudagur 15. janúar 2015 kl. 14:56

Hvert stefnum við í atvinnumálum hér á svæðinu?

Mér var brugðið þegar ég sá fundargerð stjórnar Brunavarna Suðurnesja frá 1. desember 2014.  „Stjórn samþykkir að óska nú þegar eftir viðræðum við stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um sameiningu Slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins“.  

Hver er ávinningurinn annar en að flytja þjónustuna til Reykjavíkur á sama tíma og stefnan er að flytja alla nærþjónustu í heimabyggð? Brunavarnir Suðurnesja fögnuðu 100 ára afmæli sínu árið 2013 og hafa verið ein af grunnstoðunum í samfélaginu hér suður með sjó. Halda stjórn og sveitarstjórnarmenn virkilega að sveitarfélögin á höfuðborgasvæðinu ætli að greiða niður reksturinn og halda þannig úti sömu frábæru þjónustunni sem starfsmenn BS hafa veitt íbúum á svæðinu? Brunavarnir Suðurnesja eru í eigu þriggja sveitarfélaga á Suðurnesjum, þ.e. Garðs, Voga og Reykjanesbæjar, en einnig var gerður samstarfssamningur um rekstur slökkviliðsins í Sandgerði árið 2012 og þar með tók BS yfir starfsemi þess. Í dag eru þrjú slökkvilið í rekstri á Suðurnesjum; Brunavarnir Suðurnesja, Slökkvilið Grindavíkur og síðan er flugvallarslökkvilið sem ISAVIA rekur á Keflavíkurflugvelli. Er ekki nær að vinna að sameiningu þessara slökkviliða áður en við óskum eftir að komast undir pilsfaldinn hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og færa alla yfirstjórn þangað? Hver er ávinningur okkar Suðurnesjamanna að vera með alþjóðaflugvöllinn þar sem hann er í dag ef menn sjá ekki hag í að samræma krafta þeirra sem eru að vinna svipaða vinnu eins og slökkviliðin? Væri ekki nær að ganga til samninga við ISAVIA um sameina þessi lið og efla þar með viðbragðsgetu slökkviliðanna? Suðurnesjamenn myndu njóta góðs af þeirri hagræðingu sem skapast við þann samrekstur. Ég get alveg tekið undir þann mikla vanda sem Reykjanesbær glímir við en þurfum við ekki að verja það sem við erum með áður en við gefumst upp og færum störfin úr sveitarfélaginu?  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Unnið hefur verið að ýmsum hugmyndum í að byggja upp atvinnu á svæðinu og má þar nefna alþjóða björgunar- og viðbragðsmiðstöð sem á að styrkja sameiginlega getu Íslands og samstarfslanda við leit og björgun á norðurslóðum. Þarna getur einnig skapast vettvangur til að standa að sameiginlegum æfingum og þjálfun björgunareininga hvaðanæva frá en mikil þekking og reynsla er til staðar hér á landi sem hægt er að miðla. Einnig hefur verið í umræðunni að flytja útkallseiningar Landhelgisgæslunnar hingað suðureftir en öll aðstaða fyrir hana er er til á flugvellinum og stór hluti starfsemi Gæslunnar fer fram á Keflavíkurflugvelli nú þegar. Helstu rökin gegn flutningi suður hafa verið útkallstími hjá þyrlum en í dag gengur áhöfnin bakvaktir til að manna þyrluna. En er ekki kominn tími á að áhöfnin verði á föstum vöktum? Þá eru menn til taks allan sólarhringinn allt árið um kring sem styttir viðbragðstíma þyrlunnar verulega og því ætti það ekki að vera fyrirstaða í flutningi starfsemi LHG til Keflavíkur. Þessi áform hljóma öll vel en breyta því ekki að við þurfum að byrja á því að verja það sem þegar er til staðar.

Endurskipulagning sem hefur verið í gangi í flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur haft það í för með sér að fyrirtæki úr heimabyggð eru að missa aðstöðu sína i flugstöðinni en inn koma erlendir veitingastaðir. En það er ekki hið eina. Fólk missir vinnuna í flugeldhúsinu og starfsemi flugumferðastjóra hefur verið flutt til Reykjavíkur, svo dæmi séu tekin. Eru Suðurnesjamenn í stjórnunarstöðum eða höfum við misst þær frá okkur?

Ég vill hvetja stjórn Brunavarna Suðurnesja og sveitarstjórnarmenn til að endurskoða ákvörðun sína og þar með verja þau störf sem við erum með í dag. Nær væri að leita frekar eftir samvinnu slökkviliða á Suðurnesjum.  

Verjum störfin á Suðurnesjum!

Gunnar Stefánsson.