Hvert barn sem lendir í klóm fíkniefna kostar mikið sálarstríð
Eitt af því erfiðasta sem foreldrar þurfa takast á við er að missa barnið sitt í hendur bakkusar eða fíkniefnadjöfulsins. Þegar börnin okkar leiðast út á þá braut hefst barátta sem tekur toll. Toll af barninu, unglingnum, foreldrum, systkinum, öfum, ömmum, og allri fjölskyldunni. Vinnuveitendur, skóli, samstarfsfólk vinir og kunningjar fá líka að finna fyrir ástandinu. Ókunnugt saklaust fólk verður fyrir eignaspjöllum , ránum og ofbeldi sem eru fylgifiskar neyslunar.
Hvað er til ráða? Þegar stórt er spurt er lítið um svör. Á köflum er varnarleysið algjört og úrræðin virðast fá. Þegar í öll skjól er fokið blasir fangelsisvistin ein við. Vist þar sem einstaklingur er sviptur frelsi og skikkaður í betrunarvist. Eru íslensk fangelsi raunveruleg betrun? Ég hitti móður fyrir stuttu , barnið hennar situr í fangelsi. Þessi móðir hefur reynt allt til þess að hjálpa barninu sínu af braut fíknar. Það er eitthvað að kerfinu þegar foreldri telur barni sínu jafnvel betur borgið úti á götu en í fangelsi, það er heldur ekki ásættanlegt að það taki fíkill í fangelsi margar vikur að fá samtal við Geðlækni.
Hvað getum við gert í baráttunni? Stutt foreldra í uppeldishlutverkinu með fræðslu og sjálfstyrkingu.
Verið sjálfum okkur samkvæm sem foreldrar og sýnt gott fordæmi. Gripið inní vanlíðan barna og unglinga um leið og fyrstu merki sjást.Breytt um stefnu í meðferðarmálum. Það þarf að einstaklingsmiða meðferð meira. Sýna þeim sem brýtur af sér hvaða áhrif gerðir hans hafa á þá sem verða fyrir brotinu. Gera börnum okkar grein fyrir þeim afleiðingum sem gjörðir þeirra valda. Taka á málum allra í fjölskyldunni ekki bara “vandræðaunglingsins”Lengja meðferðir og fjöga úrræðum. Endurkomur í meðferð sýna að úrræðin duga ekki til. Meðferðarúrræði þurfa ekki alltaf að vera stofnanavædd sum hver eiga miklu meira heima í nærsamfélagi neytandans.
Neysla áfengis og fíkniefna kosta þjóðfélagið marga milljarða á ári jafnvel tugi, þegar allt er talið með. Það verða allir að leggjast á eitt í baráttunni. Foreldrar, skóli, sveitarstjórnir,félagsmálayfirvöld, meðferðaraðilar og ríkisvaldið. Við þurfum stórátak í meðferðar- og forvarnarmálum. Til þess þarf samstarf, breytt viðhorf væntumþykju, fjármagn von og trú.
Þau eru mörg ungmennin sem tekist hefur að snúa við blaðinu og lifa heilbrigðu og eðlilegu lífi, fyrir það ber að þakka. Þeim börnum og unglingum sem eru enn á vígvellinum ber okkur að koma til bjargar.
Í þeirri baráttu hef ég tekið þátt og vil berjast áfram.
Guðrún Erlingsdóttir
Höfundur sækist eftir 3.-4. sæti á lista
Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi