Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Hvers vegna faglega ráðinn bæjarstjóra?
  • Hvers vegna faglega ráðinn bæjarstjóra?
    Helga María Finnbjörnsdóttir
Fimmtudagur 15. maí 2014 kl. 15:29

Hvers vegna faglega ráðinn bæjarstjóra?

– Helga María Finnbjörnsdóttir skrifar

Í aðdraganda kosninganna kann þessi spurning að brenna á mörgum þessa dagana. Bein leið hefur meðal annars lýst því yfir að vilja ráða hingað óháðan bæjarstjóra með faglegu ráðningarferli. Því það er í raun þannig að bæjarstjóri bæjarfélags er framkvæmdastjóri bæjarins. Ef við myndum setja þetta í samhengi við fyrirtækjarekstur þá myndi bæjarstjóri samsvara forstjóra mjög stórs fyrirtækis. Ef þú myndir svo spyrja stjórnanda fyrirtækis hver væri stærsta áskorunin í hans starfi, þá er ég nokkuð viss um að svarið myndi vera að ráða rétta einstaklinga inn í fyrirtækið. En það getur verið sérstaklega dýrkeypt að ráða ranga einstaklinga í störfin, en þó sérstaklega í stjórnendastöður. Ráðning í slík störf getur haft gífurlega jákvæð áhrif á fjárhagslega stöðu fyrirtækja en líka mjög slæm áhrif. Þegar réttur aðili er ráðinn, getur hvati og félagsandi einstaklinganna innan fyrirtækisins aukist gífurlega en þegar röng ákvörðun er tekin um ráðningu getur það haft í för með sér slæmt árferði bæði hvað varðar fjárhagslega stöðu en einnig fyrir einstaklingana innan fyrirtækisins. Þess vegna er eðlilegt, þegar kemur að því að ráða stjórnanda til fyrirtækis, að það fari af stað langt og strangt ferli sem felst í því að finna einstakling sem hæfastur er til verksins. 
 
En hvað er bærinn okkar annað en fyrirtæki? Bærinn okkar er fyrirtæki þar sem við erum að reyna að nýta fjármuni okkar á sem bestan hátt. Hins vegar er bærinn okkar öðruvísi en fyrirtæki að því leyti að markmiðin eru önnur. Markmið fyrirtækja er í flestum tilfellum að hámarka hagnað en markmið bæjarstjórnar ætti að vera að vinna sem best úr þeim verðmætum, þeim mannauði og þeim auðlindum sem við búum yfir á þann hátt sem reynist íbúunum best.
 
Af þessum sökum tel ég gífurlega mikilvægt, þegar kemur að því að ráða bæjarstjóra til Reykjanesbæjar, að skilgreina skýrt og skilmerkilega hvaða þekkingu, hæfni og reynslu þarf í starfið og samræma þeim markmiðum sem þurfa að nást hér innan bæjarfélagsins. Það er ekki sjálfgefið að einstaklingur sem er oddviti framboðs eða flokks sé með réttu þekkinguna og hæfnina til að gegna starfinu. Þar að auki þurfum við sem íbúar Reykjanesbæjar að geta treyst því að bæjarstjóri taki ákvarðanir þar sem pólitískir hagsmunir þvælast ekki fyrir. Við þurfum að geta treyst því að verið sé að nýta fjármuni okkar á sem hagkvæmastan hátt þar sem hagsmunir allra bæjarbúa eru hafðir að leiðarljósi. Með óháðum og faglega ráðnum bæjarstjóra þá er mun líklegra að sá sem gegnir hlutverkinu sé hæfur í starfið og sinni því óháð flokkatengslum og öllum bæjarbúum til heilla.
 
Helga María Finnbjörnsdóttir
Í framboði fyrir Beina leið
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024