Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvers vegna ætti fólk að gefa blóð?
Mánudagur 27. febrúar 2017 kl. 06:00

Hvers vegna ætti fólk að gefa blóð?

- Aðsend grein frá Ólafi Helga Kjartanssyni, blóðgjafa

Blóðbankinn gegnir mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustu Íslendinga, þótt venjulega fari það ekki mjög hátt. Sjúkir, slasaðir og þeir sem þurfa skurðaðgerðir treysta á það að Blóðbankinn eigi ávallt nægar birgðir blóðs og blóðhluta. Blóðbankinn treystir á okkur blóðgjafana, að við séum fús og reiðubúin til þess að gefa blóð. Í Bretlandi eru 2/3 hlutar gefins blóðs nýttir vegna sjúkdóma, þar með talið blóðleysis, krabbameins og blóðsjúkdóma. Rúmlega fjórðungur er notaður vegna skurðaðgerða, hjartaskurðaðgerða og skyndiaðgerða til dæmis vegna slysa. Lítill hluti er notaður vegna blóðmissis við fæðingar.

Þessi dæmi eru nefnd til þess að leggja áherzlu á mikilvægi þess að gefa blóð. Blóðgjöf bætir einnig lífsgæði margra sem stríða við ólæknandi sjúkóma, gerir þeim lífið léttara. Ávallt er þörf blóðs. Því er afar mikilvægt að blóðgjafar sinni því að gefa blóð, öðrum og þurfandi til góðs. Blóðgjöf er lífgjöf.
Blóðbankinn þarf 70 blóðgjafa á hverjum degi til þess að tryggja nægar birgðir. Allir sem vettlingi geta valdið eða öllu heldur búa við góða heilsu eru hvattir til þess að líta við í Blóðbankabílnum milli klukkan 10:00 og 17:00 næsta þriðjudag, 28. febrúar og gefa blóð. Bíllinn verður eins og venjulega við KFC í Krossmóa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þeir sem vilja gerast blóðgjafar eru hvattir til þess að mæta og fara í prufutöku. Konur mega gefa á fjögurra mánaða fresti, en karlar á þriggja mánaða fresti. Blóðgjafar geta allir orðið til 65 ára aldurs.
Mætum í Blóðbankabílinn, brettum upp ermar og látum gott af okkur leiða.

Ólafur Helgi Kjartansson
blóðgjafi