Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvernig velur maður nafn á bæ?
Laugardagur 5. maí 2018 kl. 15:28

Hvernig velur maður nafn á bæ?

Að velja nafn er vandasamt verk og oft þrungið tilfinningum. Hvort sem um er að ræða nafn á barn, fyrirtæki eða jafnvel sveitarfélag. Nöfn hafa merkingu og við viljum tengjast þeim. Nöfn venjast líka, fá nýja merkingu og ímynd út frá notkun og við bindum tilfinningar við þau út frá sameiginlegri reynslu. 
 
Nú eru íbúar í Garði og Sandgerði að velja nafn á sameinað sveitarfélag. Nýja sveitarfélagið sitt. Sveitarfélag sem er að verða til við sameiningu tveggja sem hvort um sig eiga mikla sögu. Og sameiginlega sögu. Íbúarnir vilja finna nafn og merki sem sameinar þau til framtíðar. Það eru fimm valkostir í boði og örugglega ekki allir á eitt sáttir um þá. Margir hefðu viljað eitthvað annað. 
 
Val á nafni á hið nýja sveitarfélag hefur verið í vinnslu síðan í byrjun febrúar og fylgir lögum og viðmiðum eins og annað í stjórnsýslu. Þeim sem taka ákvarðanir í stjórnsýslu er alltaf settur rammi sem þarf að fylgja. 
 
Sett var saman nefnd sex einstaklinga á breiðum aldri, af báðum kynjum og úr báðum sveitarfélögum. Nefndin kallaði eftir tillögum frá almenningi og bárust 392 tillögur í allt. Margar þeirra voru þær sömu þannig að í reynd voru tillögurnar færri. Nefndin var mjög ánægð með þátttökuna og var sérstaklega kallað eftir tillögum frá yngri kynslóðinni. Hlutverk nefndarinnar er að velja nöfn sem fari til umsagnar Örnefnanefndar, sem starfar á vegum ríkisins. 
 
Nafnanefnd sveitarfélaganna ákvað að nöfn sem hafa tilvísun í eldri nöfn þeirra kæmu ekki til álita. Það sé eðlilegt að finna nýju sveitarfélagi nýtt nafn, enda muni heitin Sandgerði og Garður lifa áfram um hvorn byggðakjarna.  Nöfn sem hafa tilvísun í Miðnes, Gerðar, Sandgerði eða Garð komu því ekki til álita. 
 
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er það sveitarstjórn sem ákveður heiti sveitarfélags að fenginni umsögn Örnefnanefndar. Það er þannig nýju sveitarstjórnarinnar að ákveða heitið. Sveitarstjórnarráðuneytið skal síðan staðfesta nýtt heiti. Heitið skal samrýmast íslenskri málfræði og málvenju. Örnefnanefnd leikur lykilhlutverk í vali á nafni sveitarfélags. Sú nefnd hefur sett sér ákveðnar reglur, sem nöfnin þurfa að uppfylla. Þær reglur má finna inni á vef Örnefnanefndar hjá Árnastofnun. 
 
Ein reglan er að forðast að ný stjórnsýsluheiti geti útilokað, þrengt að eða raskað á annan hátt merkingu eða notkun rótgróinna heita sem tengjast svæðum eða byggðarlögum innan sveitarfélags, nágrannasveitarfélags eða héraðs. Út frá þessari reglu lagðist Örnefnanefnd til dæmis gegn tillögum sem vísa til Suðurnesja. Í þeirra rökstuðningi var jafnframt vísað til þess að meirihluti íbúa á Suðurnesjum býr ekki í nýja sveitarfélaginu og að sveitarfélagið tilheyrir umdæmum og stofnunum sem bera nafn með vísun í Suðurnes. Það gæti valdið ruglingi. 
 
Önnur regla sem nefndin hefur sett sér að er að stjórnsýsluheiti sveitarfélaga séu mynduð með hliðsjón af einhvers konar kerfi, sem gefi til kynna að um sveitarfélag sé að ræða. Í gamla daga voru öll sveitarfélög hreppar, sbr. Miðneshreppur, Gerðahreppur og Reykjavíkurhreppur. Sú hefð hefur síðan þróast og nú eru til borg, bæir, kaupstaðir, hreppar, byggðir og þing. 
 
Örnefnanefnd miðar við að eftirliðurinn -bær sé hafður um sveitarfélög þar sem byggðin er að mestu eitt samfellt stórt þéttbýlissvæði. Hinsvegar að eftirliðurinn -byggð sé hafður þar sem að í sveitarfélagi er í senn allnokkurt dreifbýli og eitt eða fleiri stór þéttbýlissvæði. Með vísan til þessara reglna bera allar tillögur að nöfnum á sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis eftirliðinn -byggð. 
 
Nafnanefnd sveitarfélaganna átti í mjög góðu samstarfi við Örnefnanefnd og vísaði 16 nöfnum til umsagnar. Nefndirnar voru ekki sammála um allt og rökræddu. Af 16 tillögum voru tvö nöfn sem fóru tvisvar til umsagnar með auknum rökstuðningi, þ.e. Sveitarfélagið Saga og Suðurnesjabyggð. Það breytti ekki niðurstöðu Örnefnanefndar.
 
Eftir mikla vinnu og yfirlegu, og þrjár umferðir í umsagnarferli hjá Örnefnanefnd komst nafnanefndin að þeirri niðurstöðu að leggja fimm valkosti fram í atkvæðagreiðslu. Þeir valkostir hafa verið kynntir og atkvæðagreiðsla er hafin. Atkvæðagreiðslan fer fram í tveimur umferðum, þannig að í seinni umferð verður kosið um þau tvö nöfn sem fá flest atkvæði. Vonir standa til þess að með þeirri aðferð fáist skýr niðurstaða um nafn sem íbúar geti sameinast um. Hvaða nafn sem verður valið, er alveg ljóst að vinna þarf með nafnið og skapa því sess og byggja upp sameiginlega merkingu.  Það er verkefni allra íbúa í nýsameinuðu sveitarfélagi. 

Hér má finna  leiðbeiningar fyrir atkvæðagreiðsluna á íslensku, ensku og pólsku.
 
Róbert Ragnarsson
Höfundur er verkefnisstjóri sameiningar Sandgerðisbæjar og Garðs 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024