Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Hvernig samfélag viljum við?
  • Hvernig samfélag viljum við?
    Páll Valur Björnsson
Þriðjudagur 12. janúar 2016 kl. 07:00

Hvernig samfélag viljum við?

- Aðsend grein frá Páli Vali Björnssyni, þingmanni Bjartrar framtíðar

Fyrir nákvæmlega hundrað árum síðan, við upphaf ársins 1916, stóð fyrri heimsstyrjöldin sem hæst. Þegar henni lauk árið 1918 höfðu meira en 17 milljónir manna látið lífið. Þar af a.m.k. 9 milljónir hermanna, oftast strákar sem voru á aldrinum 19 til 22 ára þegar styrjöldin hófst árið 1914. Þá særðust um 15 milljónir hermanna, misstu útlimi eða sjón og margar milljónir komu stórskaddaðar á sál úr þessu skelfilega stríði, sviptir öllum lífsgæðum og oft lífsviljanum líka. Um þetta má lesa í stórfróðlegri bók Gunnars Þórs Bjarnasonar, sagnfræðings, sem kom út fyrir jólin. Á þessu báru alla ábyrgð þeir stjórnmálamenn sem mestu réðu í voldugustu ríkjum Evrópu. Hvílík þjáning og hvílík sóun og hvílík ógæfa sem þessir stjórnmálamenn bera ábyrgð á.
 
Nú segja sjálfsagt einhverjir sem þetta lesa að þetta sé nú ekki stórmerkileg speki hjá mér og sumir telja mig örugglega óttarlega einfaldan að trúa að þetta geti einhvern tímann orðið og aðrir segja mjög líklega að þetta sé svo sjálfsagt að það þurfi ekki að skrifa um þetta. En ég er fullkomlega ósammála þeim sem þannig hugsa. Það er nefnilega því miður svo að of margir stjórnmálamenn líta alls ekki á það sem meginskyldu sína að vinna að bættum lífsgæðum alls almennings í nútíð og framtíð og jöfnum tækifærum fólks og fyrirtækja eða þeir gera þá a.m.k. eitthvað allt annað en þeir hugsa og segja og vilja.
 
Jöfn tækifæri
Að mínu mati hafa stjórnmálamenn það eina hlutverk og þá einu skyldu að gera það sem í þeirra valdi stendur til að bæta lífsgæði fólks í nútíð og framtíð og að tryggja því sem jöfnust tækifæri. Ég er sannfærður um að þjóðfélag þar sem sátt er um það meginmarkmið að tryggja fólki og fyrirtækjum sem jöfnust tækifæri tryggir líka almenna velmegun, framtak og framþróun, sátt, sanngirni og mannúð og stuðlar að stórbættum lífsgæðum fólks og hamingju. Fólk sem býr við þannig aðstæður beitir ekki annað fólk ofbeldi og þjóð sem býr við þær aðstæður ræðst ekki á aðrar þjóðir.
 
Við sem störfum í Bjartri framtíð viljum skipuleggja þjóðfélagið þannig að allir landsmenn hafi jöfn tækifæri til að nýta margbreytilega hæfileika sína sjálfum sér og okkur öllum til framdráttar og leggjum áherslu á að allt þetta sé gert í fullkominni sátt við náttúruna og umhverfið, með sjálfbærni og ábyrgð og langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Við viljum vera virkir þátttakendur í því og leggja okkar af mörkum við að byggja hér upp lifandi efnahags- og velferðarkerfi sem býr við heilbrigt samkeppnisumhverfi sem hvetur fjárfesta og frumkvöðla til framtaks, athafna og fjárfestinga sem munu skapa ótal tækifæri, tækifæri sem munu gera okkur öllum kleift að fá vinnu sem hentar okkar margvíslegu hæfileikum og áhugamálum.
 
Enga fordóma
Við í Bjartri framtíð viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að hér verði auðvelt að lifa og starfa fyrir alla og allir fái tækifæri til að taka þátt og leggja sitt af mörkum án þess að þurfa að þola mismunun og fordóma. Þetta hefur alltaf verið mikilvægt en þó aldrei sem nú á þessum tímum fjölmenningar og margbreytileika mannlífsins og allra þeirra stórkostlegu tækifæra sem því fylgja. Við þurfum að hafa vit á að nýta þessi tækifæri en reisa ekki veggi og óþarfar, gagnslausar hindranir fyrir okkur sjálf og aðra með fordómum og þröngsýni. Gríðarstórt skref í þá átt væri að fullgilda og hrinda vel í framkvæmd samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Annað stórt skref í þessa átt væri að fullgera og samþykkja stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem lögð var fram á Alþingi í haust. Með góðri stefnu tryggjum við að þeir sem eiga við geðheilbrigðisvanda að etja fái viðeigandi þjónustu hratt og örugglega. Sérstaklega eigum við að leggja höfuðáherslu á að efla forvarnir og mæta börnum sem eiga við ýmiss konar raskanir að stríða strax á fyrstu stigum.
 
Áskoranir
En að byggja hér upp samfélag sem verður besta útgáfan af sjálfu sér er mikil áskorun; áskorun sem krefst kjarks og þátttöku allra þeirra sem þetta samfélag byggja. Þátttöku stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífsins, fræðasamfélagsins, hvers konar samtaka og félaga og ekki síst alls fólksins sem í landinu býr, ungra og gamalla, kvenna og karla. Til þess að ná sem bestum árangri í þeirri viðleitni okkar að skapa samfélag sem setur framfarir og hag almennings í forgrunn verðum við að vera tilbúin og hafa kjark til að leita allra leiða til að leggja til hliðar ágreiningsefnin. Þau geta  auðvitað verið mýmörg ef við viljum svo hafa. Við eigum ekki að  einblína á það sem skilur okkur að, okkur greinir á um og sundrar okkur heldur eigum við að horfa fyrst og fremst á það sem við eigum sameiginlegt og hvernig við getum eflt og styrkt það sem sameinar okkur.
 
Leiðarljós til framtíðar
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. að samfélag sé samvinnuverkefni þar sem öll störf skipta máli og haldast í hendur og mikilvægt sé að hlúð sé að þeim sem þurfa á aðstoð að halda. Að fólk fái notið árangurs erfiðis síns og hugkvæmni og ekki síst að aldraðir skulu njóta öryggis og velferðar og þá skuli öllum tryggð hlutdeild í þeirri verðmætasköpun sem Ísland og íslenska þjóðin getur af sér. Unnið verði að því að tryggja jafnrétti allra landsmanna, óháð einstaklingsbundnum þáttum og stöðu að öðru leyti. Þar stendur einnig að ríkisstjórnin ætli að leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið. Þetta finnst mér að ætti að vera leiðarljós okkar allra á komandi ári og ætti ekki að vera mikið mál ef við erum samhuga og einlæg í því að láta það gerast. Aðstæður eru til þess og tækfærin eru þarna öll ef við bara nýtum þau en  klúðrum þeim ekki með sundurlyndi, eigingirni og þröngsýni.
 
Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs og farsæls árs og hvet okkur öll til að láta það ár sem nú er að hefjast marka upphaf þess að við byggjum saman upp þjóðfélag jafnra tækifæra, sáttar og sanngirni.
 
Páll Valur Björnsson
þingmaður Bjartrar framtíðar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024