Hvernig er hægt að stuðla að farsælum efri árum?
Öldungaráð Suðurnesja hefur starfað í tæpt ár en það var stofnað 29. nóvember 2014. Meginhlutverk ráðsins er að gæta hagsmuna eldri borgara á Suðurnesjum og vera bæjarstjórnum á Suðurnesjum og þeim sem mál þeirra varða til ráðgjafar. Lögð er áhersla á að tengja saman alla þá sem koma að málefnum eldri borgara, fá heildarsýn á stöðuna eins og hún er í dag og geta þaðan unnið að einni framtíðarsýn, að vita hvert við stefnum auðveldar okkur að ná markmiðum okkar.
Öldungaráð hefur unnið að verkefninu „Brúum bilið“ en þar höfum við kannað þjónustu við eldri borgara í þeim bæjarfélögum sem aðild eiga að ráðinu og sameiginleg verkefni sem unnið er með. Farið var á fund bæjarráða / bæjarstjórna með niðurstöður, þakkað það sem vel er gert og bent á það sem betur má gera, munum við vera með eftirfylgni sem hvetja á til framkvæmda. Við höfum m.a. lagt áherslu á fjölgun hjúkrunarrýma og samþættingu heimahjúkrunar og heimilishjálpar, með það í huga að auka þjónustuna og nýta sem best mannauð og rekstrarfé.
Aðalfundur Öldungaráðs Suðurnesja verður haldinn mánudaginn 28. september kl.16 á Nesvöllum, Njarðarvöllum 4, Reykjanesbæ. Auk almennra aðalfundarstarfa mun Þórunn Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSS, kynna hjúkrunar- og læknaþjónustu hjá Heilsugæslunni s.s. sysa-, bráða- og sykursýkisþjónustu, Margrét Blöndal deildarstjóri heimahjúkrunar kynnir heimaþjónustu/heimahjúkrun, hvíldarinnlögn eldri borgara og endurhæfingu.
Ágætu eldri borgarar, Öldungaráð Suðurnesja er ykkar hagsmunaaðili, við hvetjum ykkur til að huga vel að því, sem getur bætt líf okkar á efri árum. Munum að huga vel að eigin heilsu, það gerir það enginn betur en við sjálf.
Jórunn Alda Guðmundsdóttir
Form. Öldungaráðs Suðurnesja.