Hvernig afnemum við verðtrygginguna?
Í síðustu viku skrifaði ég grein um það óréttlæti sem felst í verðtryggingunni og nauðsyn þess að afnema hana strax. Greinina er hægt að finna á www.magnusj.is.
Í kjölfar greinarinnar hef ég verið spurður hvernig hægt sé að afnema verðtrygginguna. Þó erfitt sé að gera þessu flókna máli góð skil í stuttri grein langar mig að tæpa á helstu atriðunum.
Verðtryggingin var sett á með lögum og verður því að vera afnumin með lögum.
Að því loknu verður að skilmálabreyta verðtryggðum lánum, þ.e. breyta þeim úr verðtryggðum í óverðtryggð lán. Fram hefur komið að meirihluti verðtryggðra lána landsmanna er í eigu Íbúðalánasjóðs. Miðað við rekstur sjóðsins undanfarin ár þá er ljóst að staða hans er grafalvarleg. Ríkissjóður hefur þurft undanfarin ár að dæla inn í hann um 46 milljörðum króna vegna lélegrar stöðu. Þetta hefur ekki dugað til og nú er rætt um að bæta þurfi allt að 50 milljörðum við. Enn sér ekki fyrir endann á málinu því talið er að sjóðurinn þurfi allt að 200 milljörðum til að leysa neikvæða eignastöðu hans. Allt bendir því til þess að sjóðurinn sé gjaldþrota og kerfið hrunið.
Í fjárfestingum fyrirtækja gildir sú regla að fjárfestar henda ekki góðum peningum á eftir glötuðum. Fjárfestar gera þá kröfu að nýtt fjármagn sé notað til að ná árangri. Ekki er óeðlilegt að gera sömu kröfu þegar kemur að fjármunum hins opinbera. Í neikvæðri stöðu Íbúðalánasjóðs felst því kjörið tækifæri til að endurskoða og leiðrétta það óréttlæti sem felst í verðtryggingunni og koma heimilum landsins til aðstoðar.
Þegar kemur að verðtryggðum lánum heimilanna þá lítur út fyrir að við stöndum frammi fyrir tveimur valkostum, annars vegar að halda áfram á sömu braut og reyna að bjarga núverandi kerfi með kostnaðarsömum smáskammtalækningum sem leiðrétta ekki óréttlætið né nýtast til að leysa skuldavanda heimilanna. Hins vegar að viðurkenna að kerfinu sé ekki bjargandi og nota tækifærið og færa okkur í óverðtryggt og réttlátt kerfi sem tekur á þeim vanda sem við heimilunum blasir.
Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er því þessi, er réttlætanlegt að eyða tugum eða hundruðum milljarða af skattpeningum ríkissjóðs í að viðhalda núverandi verðtryggt kerfi án þess að leysa vanda heimilanna? Verður ekki að gera þá kröfu að ef fjárfesta á frekar í fasteignalánakerfi landsmanna með fjárframlögum úr ríkissjóði þá séu þeir fjármunir nýttir til að leysa skuldavanda heimilanna og leiðrétta óréttlætið sem í verðtryggingunni felst.
Magnús B. Jóhannesson
www.magnusj.is
Höfundur er rekstrarhagfræðingur og gefur kost á sér í 3. sæti prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi 26. janúar næstkomandi.