Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hverjum er treystandi fyrir fjöregginu?
Laugardagur 9. apríl 2016 kl. 06:00

Hverjum er treystandi fyrir fjöregginu?

Menn tuða í sífellu um að þeir sem stjórna þurfi að hafa nóg á milli handanna, því þá sé minni hætta á að borið sé á þá fé. Það er fásinna. Enginn er svo ríkur að hann vilji ekki meira.  Þetta snýst um græðgi og græðgin er í eðli sínu takmarkalaus. Þar eru engin efri mörk.

Það er spurning um heiðarleika hvort við treystum fólki fyrir okkar málum - okkar framtíð. Um samkennd með öðru fólki. Blásnautt fólk er ekki síður heiðarlegt en ríkt fólk. Ég held að það sé auðveldara að múta ríkum manni en snauðum. Sá snauði hefur vanist því að fá lítið og komast af með lítið (og hefur líklega ekki varið kröftunum í auðsöfnun) en líf þess ríka hefur trúlega snúist meira um auðæfi - að afla þeirra og halda utanum. Og til að réttlæta að þeir eigi skilið meira en aðrir staðsetja þeir sig fyrir utan og ofan fjöldann. Sammála?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég er hér að færa rök fyrir þeirri sannfæringu minni að auðmenn eigi EKKI að koma nálægt hvorki Alþingi né ráðherrastólum. Auðmannaklíkur eiga EKKI að koma nálægt Alþingi - og alls ekki að verma ráðherrastóla. Það er málið! Úlfar eiga ekki að gæta sauðahjarðar (þó í sauðagæru séu). Þeir sem hugsa mest um að troða út sína eigin vasa eiga ekki sjá um okkar sameiginlegu mál.

Félagshyggja er betri fyrir samfélagið en auðhyggja. Nú þurfa fleiri að átta sig á þeirri augljósu staðreynd. Með félagshyggju er hægt að hemja græðgina, setja sanngjarnar leikreglur og fylgja þeim eftir. Við Vinstri græn erum öflug í því. Við erum hreyfing félagshyggjufólks sem helgar sig baráttu fyrir betra samfélagi – sem er betra fyrir okkur öll (líka betra fyrir auðmennina, því auðurinn færir þeim takmarkaða hamingju). Hamingjan sprettur upp þar sem fólk kemur fram hvert við annað sem jafninga, sýnir örlæti og virðingu og býr við öryggi án vopnaskaks.

Okkur vantar fleira félagshyggjufólk til að breyta samfélaginu. Til að skapa betri framtíð fyrir okkur öll. Nú er tækifæri til að láta gott af sér leiða! Koma svo!

Þorvaldur Örn Árnason,
Vinstrigrænn í Vogum