Hverju verður fórnað?
Í sumar hefur viðrað vel til útivistar og sífellt fleiri Suðurnesjabúar og aðrir ferðalangar hafa lagt leið sína á Reykjanesskagann til þess að skoða þar stórbrotna náttúruna sem einkennist af miklum jarðhræringum. Háhitasvæðið í Seltúni er t.d. orðinn mjög vinsæll viðkomustaður ferðamanna, þar er gott aðgengi; bílastæði, salerni og útsýnispallar. Á Krísuvíkursvæðinu er líka annað einstakt háhitasvæði, Austurengjar, þar eru að vísu engir útsýnispallar ennþá svo ferðamenn verða að fara varlega um svæðið. Margir leggja líka líka leið sína um Sveifluháls og Núpshlíðarháls, þar liggja góðir göngustígar sem leiða göngufólk um einstaklega fallega og spennandi náttúru.
það sem fæstir ferðalangar gera sér þó grein fyrir er að öll þessi svæði eru í bráðri hættu. þau á að nýta til þess að skaffa fyrirhuguðu álveri í Helguvík raforku. Á Fréttaveitu Hitaveitu Suðurnesja segir að brýnt sé að bora 3-5 holur á þeim svæðum sem Hitaveitan hefur rannsóknarleyfi á til þess að sannreyna að um nýtanleg jarðhitasvæði sé að ræða og að 12-15 holur þurfi fyrir hver 100 MW ef til virkjana komi. þau svæði sem Hitaveitan hefur rannsóknarleyfi á eru Seltún, Austurengjar, Sandfell og Trölladyngja. Samkvæmt frummatsskýrslu Norðuráls fyrir álverið í Helguvík standa hugmyndir til um að virkja allt að 100 MW á hverju svæði, eða alls 400 MW úr þessum fjórum svæðum. Ef jarðhiti verður virkjaður á þessum svæðum þýðir það ekki bara að þessi einstöku háhitasvæði verði gjöreyðilögð, heldur verða líka lagðar háspennulínur yfir Núpshlíðarháls og Sveifluháls. Jafnvel þó jarðstrengir væru lagðir í stað háspennulína þýðir það að jarðrask yrði á hálsunum því það þarf að leggja umfangsmikla þungaflutningavegi til þess að koma jarðstrengjum fyrir.
þetta eru fórnirnar sem við þurfum að færa fyrir álver í Helguvík og þau störf sem þar skapast. Er það þess virði? Samkvæmt mati Orkustofnunar á vinnslugetu svæðanna, samræmast þessar virkjanir ekki hugmyndafræðinni um sjálfbæra þróun. Séu tölurnar skoðaðar eru líkur á að svæðin yrðu þurrausin á 35-40 árum eða svo og þá þyrfti að hvíla þau í u.þ.b. 50-80 ár áður en hægt yrði að vinna úr þeim orku að nýju. Yrði þá álverinu í Helguvík lokað eftir 40 ár? Kemur kreppan þá? Eða verður þá farið í Brennisteinsfjöll til þess að snúa hjólum atvinnulífsins? Hvar eiga kynslóðirnar sem koma á eftir okkur að fá raforku?
Ég hvet alla Suðurnesjabúa til þess að gera sér fulla grein fyrir því hverju við ætlum að fórna fyrir álver í Helguvík og taka upplýsta ákvörðun um það hvort fórnin sé þess virði.
Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir
Heimspekingur og talskona Sólar á Suðurnesjum.
Mynd: Frá Trölladyngju á Reykjanesskaga. Ljósmynd: Ellert Grétarsson