Hverjir styðja þig fyrir alvöru?
Þegar fólk ákveður að gera breytingu á lífsstíl sínum, s.s. borða hollari mat, hreyfa sig mikið, minnka að djamma og þar fram eftir götunum er misjafnt hvernig fólk í nánasta umhverfi bregst við því.
Það er löngum sannað að stuðningur skiptir fólk miklu máli þegar það gerir breytingar á lífi sínu. Þú átt eftir að þurfa á stuðningi að halda því það er erfitt að gera lífsstílsbreytingar upp á eigin spýtur. Það er mjög mikilvægt að þegar þú ákveður að taka þig á, þá sértu að umgangast rétta fólkið eða sért allavega meðvitaður um fólkið í kringum þig og undirbúinn viðbrögðum þeirra.
Ákjósanlegast væri að geta umgangast einungis fólk sem styður þig alla leið. Fólk sem hvetur þig og fagnar þér þegar þú nærð árangri. Fólk sem segir ekki ,,ég sagði þér að þú gætir þetta ekki" þegar illa gengur. Það er hinsvegar eitt sem þú þarft að vera meðvitaður um og það er að sumir einstaklingar munu reyna að pressa á þig til þess að snúa aftur í gamlar venjur. Sumir gera það meðvitað en flestir gera það þó ómeðvitað. Þessir einstaklingar setja pressu á þig að borða óhollan mat þeim til samlætis, sleppa æfingu til að geta gert hluti með þeim, koma með þeim á djammið, ásamt því að reyna draga úr þér með því skjóta að þér óviðeigandi tilmælum.
Ég mæli því með því að skrifir niður a.m.k. fimm einstaklinga sem þú heldur að muni styðja þig og fimm einstaklinga sem þú heldur að gætu komið í veg fyrir árangur þinn. Segðu þessum fimm sem þú telur að styðji þig að þú hafir skrifað þá á lista hjá þér sem stuðningsmenn þannig að þeir viti hvers er af þeim ætlast og styðji þig 100% þegar þú þarft á þeim að halda. Hafðu hinn listann bara fyrir þig því einhverjir gætu móðgast. Ástæðan fyrir því að ég vil að þú skrifir þá niður sem þú telur að gætu hamlað árangur þinn er sú að þú verður meðvitaður og undirbúinn þegar þetta fólk reynir að draga þig niður og lætur það þá hafa minni áhrif á þig.
Annað tengt þessu. Ég vil hvetja þig til að veita öðrum í kringum þig mikinn stuðning og að fagna árangri annarra jafnvel þótt þú hafir ekki náð jafn góðum árangri. Það er nefnilega þannig að því meira sem þú gefur af sjálfum þér án þess að vænta einhvers til baka - því líklegra er að þú eigir eftir að fá stuðning úr óvæntum áttum.
Gangi þér vel
Helgi Jónas Guðfinnsson,
styrktarþjálfari, kennari við ÍAK einkaþjálfaranám Keilis og körfuknattleiksþjálfari
www.styrktarthjalfun.is *Nýtt Metabolic námskeið á Ásbrú hefst 17. október*
www.facebook.com/styrktarthjalfun