Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hver talar um klisjupólitík?
Sunnudagur 14. maí 2006 kl. 11:32

Hver talar um klisjupólitík?

Ég las á vef Víkurfrétta, að hinn ágæti stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins, Árni Brynjólfur Hjaltason, er að velta fyrir sér hvort við frambjóðendur annara flokka en Sjálfstæðisflokksins höfum ekki verið að fylgjast með síðustu fjögur árin sem fráfarandi bæjarstórn hefur verið við stjórnvölinn.

Ég spyr sjálfa mig eftir lestur greinarinnar; - "hafa þeir ekki verið að hlusta á okkur"?

Hvernig stendur á því að fjárhagsstaða Reykjanessbæjar er ekki betri en hún er, eftir að búið er að selja fasteignir bæjarins til Fasteignar ehf?

Af hverju eru eldri borgarar að sækja sér læknisþjónustu í önnur bæjarfélög?

Af hverju geta eldri borgarar ekki treyst því að þeir fái mannsæmandi þjónustu í sínu eigin bæjarfélagi?

Af hverju þurfa eldri borgarar að eiga á hættu að líða skort á dvalar- og hjúkrunarrýmum í þeirra eigin sveitarfélagi?

Af hverju þarf að klípa af lægstu launum þeirra sem starfa á vegum Reykjanessbæjar, ef fárhagur bæjarfélagsins er svona góður?

Hvernig stendur á því að þegar einstæð móðir sækir um félagslega íbúð í Reykjanesbæ þá þarf hún að draga umsókn sína aftur? Ástæðan? Leigan var 70.000 krónur á mánuði og hún þarf að greiða þrjá mánuði fyrirfram; 210.000 krónur. Halda núverandi bæjarstjórnarmenn að fólk væri að sækjast eftir þessum félagslegu íbúðum ef það ætti svona fjárhæðir á lausu?

Er ekki sanngjörn lágmarkskrafa að öllum líði vel í Reykjanesbæ ef allt er svona gott sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert, en ekki bara þeir sem hafa flotið þessu bleika skýi sjálfstæðismanna í góðæri og ríkidæmi?

Ég held að þeir ættu að tylla sér niður stutta stund og sjá að það er til annar veruleiki. Við í Frjálslynda flokknum viljum breyta forgangsröðinni og takast á við þau samfélagsmálefni sem hafa gleymst síðustu fjögur árin.

Ef eitthvað er klisjupólitík þá er það sú pólitík sem við verðum vitni að þessa dagana. Þar sem sjálfstæðismenn koma síðustu daga fyrir kosningar og beita bellibrögðum til að slá ryki í augu kjósenda, með fögrum fyrirheitum og lúxus sem keyptur er með sölu eigna og skuldasöfnun sem á endanum verður mest á kostnað þeirra sem minna mega sín.

Sigríður Rósa Laufeyjardóttir
leikskólaleiðbeinandi, skipar annað sæti F-listans í Reykjanesbæ , www.hafnargata.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024