Hver skaut Pollýönnu?
Undirrituð hefur velt því fyrir sér undanfarið hver hafi orðið örlög hinnar yndislegu Pollýönnu sem sá eitthvað jákvætt í öllum aðstæðum. Ýmsar samsæriskenningar hafa skotið upp kollinum við þessar vangaveltur og ein þeirra hljóðar á þann veg að hún hafi verið skotin af færi og grafin með útrásarvíkingum og erlendum gengislánum seinnipart árs 2008. Síðan þá hefur lítið til hennar spurst. Fyrir þann tíma upplifði undirrituð mun meiri jákvæðni í okkar góða samfélagi, flestir voru spenntir fyrir framtíðinni og þeim ævintýrum (mitt orð yfir verkefni) sem hún bar í skauti sér. Eða hvað?
Fljótlega eftir bankahrun og núna fjórum árum síðar, í lok árs 2012, virðist vera að Pollýanna hafi orðið samnefnari þess sem ekki má og er bókstaflega vísbending um einbeittan brotavilja að halda henni á lífi. Glaðbeitt fólk er beinlínis sakað um að vera í “Pollýönnuleik”, afneitun og kæruleysi, vogi það sér að láta í ljósi jákvæðar skoðanir sínar á umhverfi sínu eða aðstæðum. Ég vil taka það fram að Pollýanna á ekkert skylt við Gullkálfinn og dýrkun hans á dauðum hlutum.
Sér í lagi finn ég fyrir þessu hérna á Suðurnesjum. Hér er það háalvarlegur glæpur að halda lífi í henni vinkonu okkar. Allt er á niðurleið, hér eru aðfluttir andskotar allt að drepa og hér hafa lífsgæðin minnkað mest á landinu öllu, svei mér þá ef lánin hafa ekki hækkað mest hér og verðbólgan hærri. Þeir sem ekki gera þetta að ráðandi skoðun sinni á svæðinu eru bara ekki að fylgjast með!
Ég segi hingað og ekki lengra - ég tilkynni hér með að ég ætla að fremja alvarlegan glæp. Ég ætla að halda lífi í henni vinkonu minni sem sá, þegar hún fékk úthlutað tómt og kalt herbergi uppi á hanabjálka, að í gegnum örlítinn glugga hafði hún það fallegasta málverk sem til er, himin sjálfan. Þetta geri ég ekki eingöngu fyrir mig heldur einnig börnin mín sem þá alast upp með sterka sjálfsmynd, stolt yfir uppruna sínum og trú á eigin getu.
Já, kalli þetta hver það sem hann vill en við eigum val. Það sem við veitum athygli vex og dafnar. Við höfum ákveðna orku til afnota og það er undir okkur komið í hvað við notum hana og hversu mikið við leyfum öðrum að hafa áhrif þar á. Við getum valið að veita því neikvæða athygli, nært það og lofað því að vaxa okkur yfir höfuð með tilheyrandi vonleysi og vanlíðan. Neikvætt viðhorf er nefnilega mesta orkusuga sem til er. Við getum líka valið að líta á það sem jákvætt er og nært okkur með því, fyllt huga okkar og hjörtu af gleði og tilhlökkun yfir því sem hver dagur ber í skauti sér. Já, algjörlega óháð því hverjar aðstæður okkar eru. Rétt eins og við veljum að næra líkama okkar með fæðu á hverjum degi, getum við valið að næra sálina með jákvæðu viðhorfi til þeirra aðstæðna sem mæta okkur og alls þess smáa sem birtist á leiðinni. Aðeins þannig höfum við kraft og vilja til að mæta þeim, breyta því sem við viljum breyta, og getu til að hafa áhrif á það hvernig okkur reiðir af. Hverju töpum við við það?
Pollýanna vinkona mín kenndi mér að við getum stýrt viðhorfi okkar. Sigurinn felst í því að sjá hið jákvæða í öllum aðstæðum. Við veljum það fólk sem við viljum umgangast, við veljum þær upplýsingar sem við sækjum okkur, t.d. þær fréttir sem við lesum. Góð kona sagði mér eitt sinn að í glímu sinni við þunglyndi hefði læknirinn hennar mælst eindregið til þess að hún hætti að lesa minningargreinarnar í Mogganum og það svínvirkaði! Hann hefur örugglega þekkt Pollýönnu mína vel sá. Pollýanna mælir nefnilega með að við hættum að lesa neikvæðar fréttir af öllu tagi, hættum að veita því athygli sem dregur úr okkur mátt og gleði. Verum meðvituð um hugsanir okkar og þannig getum við umbreytt lífi okkar ótrúlega hratt því orkan sem eftir verður til að sinna því jákvæða verður ómæld.
Já mínir kæru samborgarar, hún Pollýanna vinkona mín er sko alls ekki dauð. Hún lifði af skotárásirnar miklu árið 2008 og mun vonandi verða vinkona okkar allra áður en langt um líður. Munið bara að hún kemur aldrei óboðin í heimsókn, hvað þá að hún láti aðra um að bjóða sér til okkar. Heimsókn hennar kostar ekki neitt en borgar gjarnan með sér, sér í lagi ef hún fær að gista. Þið verðið að senda henni persónulegt boðskort og ég veit að hún þiggur það með þökkum. Ég ábyrgist að hún er kærkominn gestur sem við viljum ekki að kveðji okkur að nýju.
Með ósk um gleðilega aðventu og árangursríka endurlífgun Pollýönnu.
Helga Jóhanna Oddsdóttir
Ráðgjafi, NLP practitioner og markþjálfi
p.s. vissuð þið að bókin um Pollýönnu var endurútgefin hér á landi í desember 2008? Tilviljun?