Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hver er tilgangurinn, Eysteinn?
Föstudagur 3. júní 2005 kl. 10:14

Hver er tilgangurinn, Eysteinn?

Enn á ný ryðst Eysteinn Jónsson, formaður fulltrúarráðs Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ, fram á ritvöllinn og setur fram sínar eigin hugmyndir um uppsetningu ársreikninga sveitarfélaga. Ég velti fyrir mér hvaða tilgangur er með þessum skrifum Eysteins. Er markmiðið að reyna að búa til neikvæða mynd í hugum landsmanna og draga úr uppbyggingu og íbúafjölgun hér í Reykjanesbæ ?

Vísvitandi rangfærslur
Ég hef áður bent á að rekstrarleigusamningar sem sveitarfélagið gerir eru ekki færðir til skulda eins og Eysteinn gerir ítrekað. Þessar aðferðir eru rangar við uppsetningu ársreikninga og Eysteinn veit það. Engu að síður heldur hann vitleysunni áfram. Ég hef einnig bent á mörg önnur atriði sem hægt væri að færa til skulda ef hann vill fara þessa leið. Þannig gæti hann látið líta út fyrir að staða sveitarfélagsins væri mikið verri en hann gerir. Fyrst Eysteinn er í þessum leik stendur hann sig illa.

Tillögur Framsóknar
Ef Framsóknarflokkurinn í Reykjanesbæ gagnrýnir svo hart þann kostnað og þá miklu uppbyggingu sem verið hefur í bænum okkar á þessu kjörtímabili þá væri gaman að fara yfir þær tillögur og gagnrýni sem komið hafa frá bæjarfulltrúa flokksins um þau verkefni sem hér hafa verið framkvæmd. Þær sparnaðartillögur hafa ekki tekið mikinn tíma frá bæjarstjórn Reykanesbæjar. Ég bið Eystein að gera bæjarbúum grein fyrir þeim hið fyrsta. 

Alltaf allt á hausnum
Ég hef fylgst náið með bæjarstjórnarmálum frá 1990 og tekið þátt í þeim kosningum sem fram hafa farið frá þeim tíma. Ég man ekki betur en minnihluti bæjarstjórnar hafi alltaf sagt að hér sé allt á hausnum. Samkvæmt málflutningi minnihluta í bæjarstjórn hefur aldrei verið hægt að framkvæma neitt vegna slæmrar skuldastöðu. Helguvík, Reykjaneshöllin, Hafnargatan og mörg fleiri verkefni hafa verið gagnrýnd vegna þess að kostnaður hefur verið of mikill. Sem betur fer hafa þessi rök ekki verið ráðandi enda fátt sem hér væri framkvæmt ef svo væri.

Í Reykjanesbæ er nú mikill uppgangur. Fjölgun íbúa er hröð og ímynd sveitarfélagsins er allt önnur í hugum landsmanna en var fyrir nokkrum árum. Þjónusta er með því allra besta sem veitt er og umhverfi hefur tekið miklum stakkaskiptum Ég hvet alla til þess að taka þátt í þeirri ímyndasköpun og láta niðurrifsöflin og neikvæðnina lönd og leið.

Böðvar Jónsson
Reykjanesbæ 2. júní 2005

Síðustu grein Eysteins má finna Hér en einnig má finna fleiri greinar um málefni Reykjanesbæjar og önnur mál með því að smella á hnappinn aðsent efni hér til vinstri á síðunni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024