Hvatningaverðlaun Fræðsluráðs Reykjanesbæjar
Fræðsluráð Reykjanesbæjar efnir til hvatningarverðlauna fyrir einstaka kennara, kennarahópa og starfsmenn í leikskólum, grunnskólum og tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Verðlaunin eru veitt fyrir starf eða verkefni sem þykja skara fram úr og vera öðrum til eftirbreytni. Afhending verðlaunanna fer fram 11. júní ár hvert. Dómnefnd verður skipuð kjörnum fulltrúum fræðsluráðs og áheyrnarfulltrúum.
Markmið hvatningarverðlaunanna er að vekja athygli á gróskumiklu starfi skólanna og stuðla að nýbreytni og þróunarstarfi. Verðlaunin eru viðurkenning fyrir vel unnin störf í þágu nemenda og foreldra og staðfesting á því að skólinn sé fyrirmynd annarra á því sviði sem um ræðir.
Allir sem vilja geta tilnefnt einstaklinga eða skólaverkefni til verðlaunanna. Verðlaun verða veitt þeim starfsmönnum eða skóla sem þykja hafa af framúrskarandi verkefnum að státa. Viðurkenningarskjöl eru veitt fyrir athyglisverð verkefni. Einnig verða allar tilnefningar birtar á vefsíðu Reykjanesbæjar ásamt umsögn um hverja tilnefningu.
Tilnefna má þróunar- og nýbreytniverkefni um hvaðeina í skólastarfi sem unnið hefur verið að á yfirstandandi skólaári s.s. vinnu með nemendum, stefnumótun og skipulag, verkefni eins kennara eða samvinnuverkefni, verkefni í almennri kennslu eða sérgreinum, framlag annars starfsfólks skólans, forvarnarstarf eða félagsstarf.
Tilnefningar skulu berast á þar til gerðum eyðublöðum með rökstuðningi, sjá vefsíðu Reykjanesbæjar.