Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvar var stuðningurinn  við Suðurnesjalínu 2?
Föstudagur 8. mars 2024 kl. 06:12

Hvar var stuðningurinn við Suðurnesjalínu 2?

Formanni bæjarráðs Suðurnesjabæjar svarað

Það hefur hver sinn djöful að draga og er ég engin undantekning á því. Ég til dæmis þoli illa eftirspeki, hvað þá málflutning eftirspekinga. En nú er gósentíð eftirspekinnar og margir vildu Lilju kveðið hafa í mörgum málum. Fyrstu hugmyndir að Suðurnesjalínu 2, komu fram í stjórn HS Orku undir lok síðustu aldar. Lengst af þeim tíma hefur vantað upp á samstöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum að standa saman vörð um framkvæmdina. Þar var ekki aðeins sveitarfélagið Vogar sem stóð í vegi fyrir framkvæmdinni. Á síðasta ári gáfu Vogamenn út framkvæmdaleyfi fyrir lagningu línunnar. Það var farsæl niðurstaða sem ég fagnaði mjög eftir of langa bið.

Í Morgunblaðinu fimmtudag 29. febrúar sl. var grein eftir, Anton Guðmundsson, fulltrúa Framsóknarflokksins og formanns bæjarráðs Suðurnesjabæjar. Grein Antons ber yfirskriftina „Orkuinnviðum á Suðurnesjum ógnað.“ Greinahöfundur fjallar þar m.a. um Suðurnesjalínu 2., og þar mátti lesa úr bókun stjórnar SSS.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Suðurnesjamenn þurfa á Suðurnesjalínu 2 að halda og það strax. Um gríðarlega mikilvæga innviðaframkvæmd er að ræða fyrir öll Suðurnesin í heild sinni. Lengi hefur verið kallað eftir frekari raforku inn á svæðið og hefur deila staðið um framkvæmdina í rúma tvo áratugi. Það hefur legið fyrir um langa hríð að nauðsynlegt væri að ráðast í framkvæmdir sem þessar til að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum og auka flutningsgetu raforkukerfisins milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja.“

Þrjú frumvörp

Eftir að ég hafði setið á Alþingi í sjö ár sá ég enga aðra leið til að flýta fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 en að flytja lagafrumvarp sem veitti Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir línunni. Það var auðvitað sársaukafullt að þurfa að flytja lagafrumvarp sem tæki skipulagsvald af sveitarfélagi í einu máli. En þegar maður er í pólitík þarf líka að taka erfiðar ákvarðanir og vinna óvinsælu málin. Mín pólitík hefur snúist um að taka afstöðu og fylgja minni sannfæringu og það hefur oft kostað mig. Við undirbúning frumvarpsins fékk ég mörg skilaboð frá einstaklingum, póli-tískum samherjum og jafnvel félögum. Þau gengu flest út á það að tilkynna mér að ég fengi ekki þeirra stuðning í næsta prófkjöri. Hótanir hafa ekki áhrif á ákvarðanir mínar nema síður sé, og ég naut stuðnings áfram. Ég lagði frumvarpið „Framkvæmdarleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2“ fram á þremur þingum. Fyrst 2. desember 2020, þá 8. desember 2021 og síðast 16. september 2022.

Ég leitaði eftir stuðningi þingmanna og óskaði eftir meðflutningi þeirra á málinu og við síðustu framlagningu voru eftirtaldir þingmenn flutningsmenn. Undirritaður, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Árnason, Hildur Sverrisdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Diljá Mist Einarsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir. Allt þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þau fjögur ár sem málið var fyrir Alþingi skorti á að mínu mati á almenna samstöðu opinberra aðila á Suðurnesjum og  þingmanna, en hann var mikill frá almenningi. Þeir voru fáir sem vildu taka óvinsæla ákvörðun fyrir framfarir á Suðurnesjum og tryggja raforkuflutning sem frumvarpið fjallaði um. Nú ber svo við að þeir sem þögðu þunnu hljóði í gegnum umræðuna koma nú fram og segja okkur hvað málið er mikilvægt og kalla eftir samstöðu. Eftirspekingar fremstir í flokki og allskonar Alibabar sem þakka sér að framkvæmdaleyfið er komið í höfn. En gott að við erum allir í sama liði fyrir rest og við sem vorum alltaf í liðinu bjóðum þá velkomna.

Og greinahöfundur heldur áfram

„Þetta þarf markviss samtöl alþingismanna, sveitarstjórnarmanna, sérfræðinga og embættismanna til þess eins að veita málefnum sem snerta innviðauppbyggingu á Suðurnesjum framgang í stjórnsýslu og stjórnsýsluákvörðunum vegna þess að það liggur mikið við. Orkuinnviðum á Suðurnesjum ógnað“

Hérna erum við Anton að tala saman og ég fagna samstöðunni, jafnvel þó seint sé. Það er mikilvægt að ryðja úr vegi hindrunum fyrir uppbyggingu innviða á Suðurnesjum og vinna að þeim sem einn maður. Það getur kostað sársaukafullar ákvarðanir, en þá reynir líka á menn. Slíka samstöðu hefur lengi skort á Suðurnesjum í okkar mikilvægustu málum. En nú er samhljómur sem ætti að fleyta okkur langt.

Ásmundur Friðriksson,
alþingismaður.