Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvar skal skera niður
Föstudagur 13. mars 2009 kl. 13:43

Hvar skal skera niður

Við heyrum dag eftir dag fréttir um niðurskurð, þetta munum við heyra áfram. Verst þykir mér að niðurskurðurinn er farinn að bitna á þeim sömu og alltaf, landsbyggðarfólki, sjómönnum og hinum almenna borgara. Þá vitna ég í niðurskurð hjá landhelgisgæslunni, lokun skurðstofa, uppsagnir sjúkraflutningamanna, lokun flugturna og margt fleira. Við munum það að þenslan á landsbyggðinni var ekki eins mikil og á höfuðborgarsvæðinu.

Ég tel að við getum haldið öryggi íbúanna óskertu og sótt þessa fjármuni í öðrum niðurskurði. Þar tel ég að brýnasta verkefnið sé að snúa hinum íslenska yfirmannapýramída við, því hann hefur víða snúist á hvolf. Einnig er ótrúlegt að sjá svo margar ríkisstofnanir staðsettar á höfuðborgarsvæðinu þegar hægt er að fá mun hagkvæmari húsnæðiskost fyrir þær víða um land, og oft eru þær atvinnugreinar sem viðkomandi stofnun starfar að staðsettar að mestu á landsbyggðinni. Af hverju á að nýta minn skattpening í rándýrt atvinnuhúsnæði sem er hægt að fá ódýrara annarsstaðar? Svo má að sjálfsögðu ekki gleyma að fækka stofnunum og minnka aðrar.  Einnig tel ég að við gætum lagt niður mörg sendiráð og haft í staðinn ræðismenn, húsnæðiskosti væri svo hægt að deila í samvinnu við hin norðurlöndin. Við erum jú bara um 300.000, er ekki réttara að tryggja öryggi og þjónustu við landsmenn hér heima frekar en að vera að snobba fyrir embættismönnum í útlöndum? Við verðum að sameinast um að hafa grunnþjónustuna, lögreglu, heilsugæslu, menntun og samgöngur, sem öflugasta. Því það sparar fjármuni til langs tíma og tryggir landsmönnum betri lífskjör.

Ég átta mig á því að þetta eru ekki nýjar hugmyndir. Ungir Sjálfstæðismenn hafa t.d. bent á þetta til fjölda ára. Ef stefnumál SUS eru skoðuð aftur í tímann þá kemur í ljós að mörg þeirra þykja sjálfsögð í dag, Sjálfstæðisflokkurinn verður að hlusta á grasrótina. SUS hefur verið kallað samviska flokksins, ég ætla að berjast fyrir því að flokkurinn missi ekki tengslin við sína samvisku.
 
Vilhjálmur Árnason
Frambjóðandi í 3.- 4. Sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024