Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Hvar eru allar sterku stelpurnar?
  • Hvar eru allar sterku stelpurnar?
    Lína langsokkur.
Miðvikudagur 4. mars 2015 kl. 13:02

Hvar eru allar sterku stelpurnar?

Særún Rósa Ástþórsdóttir skrifar.

Nýlega las ég grein um kröftugar kvenpersónur og fyrirmyndir og í raun skort á þeim fyrir stelpurnar okkar allar, ungar og gamlar. Ég reyni að vera meðvituð um að ala kraft og kjark í dóttur mína, hún er sterk (reyndar furðulega sterk miðað við aldur), hún prumpar viljandi og finnst það fyndið (alls ekki í skólanum samt því það má ekki, að hennar sögn) og hún ákveður mjög oft sjálf nákvæmlega hvað hún ætlar sér að gera. Ég hef lært að velja baráttur í þeim efnum, sumt fær hún frjálst val með og annað ekki.

Í gegnum tíðina hefur kraftauppeldið oft rekist á við raunveruleikann eins og þegar hún ákvað að gefa spiderman nærbolina sína svo krakkarnir myndu ekki hlæja að henni fyrir að vera í strákabol. Ég reyndi að tala um fyrir henni - verð ennþá döpur við tilhugsunina - hún féllst á að geyma einn og var bara í honum undir peysunni. Hætti svo að fíla spiderman og þá var það úr sögunni. Ég gæti talið upp ótal svona dæmi þar sem umhverfið hefur ákveðið eða reynt að ákveða fyrir okkur hvernig við eigum að vera. Og í mörgum tilfellum tekst það alltof vel.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stóra planið til að bregðast við þessu felst í því að vera henni fyrirmynd í kröftum, áræðni og kjark og taka pláss hvar sem ég vil, í stað þess að springa úr gremju yfir úreltum og fáránlegum viðhorfum úti í samfélaginu. Það er flóknara en það virðist því prógrammið er svo greipt í undirmeðvitundina að plássfreka ég er í stöðugri samkeppni við samviskubitið, hógværðina og nei, ég segi bara svona hugsunina - sem gerir það að verkum að ég efast frekar en að trúa og fresta frekar en að framkvæma. Ég þarf að endurforrita hugsanaferlið með hugrekki, kjark og trú á eigin kraft og gefa þannig dóttur minni sterka kvenfyrirmynd í innsta hring.

Um helgina fékk ég liðsstyrk utan frá og algjört aha! móment þegar við dáðumst saman að Línu langsokk í Borgarleikhúsinu. Sterkasta stelpa í heimi sem gerir það sem henni sýnist og þorir, ójá, það sem hún þorir hún Lína. Dóttir mín var heilluð, hún fékk raunverulega mynd af Línu beint í æð í leikhúsinu og sá sjálfa sig í sumum senunum, allavega kannaðist ég við sumt. Aha-ið var einmitt þetta, skilaboðin frá umhverfinu – að geta speglað sig sem sterka stelpu í leikhúsi og kvikmyndum hefur svo ótrúlega mikið að segja.
Þar er innspýting í kraftauppeldið og við þurfum miklu, miklu fleiri sterkar kvenpersónur sem trúa, þora og framkvæma!