Hvaða vakt stóð Reykjanesbær sem Sveitarfélagið Garður stóð ekki?
Forsvarsmenn Reykjanesbæjar gefa skýringar á vef Víkurfrétta í gær á slæmri stöðu sem ársreikningar Reykjanesbæjar 2008 sýna. Þar segir orðrétt: „Stærsti einstaki áhrifavaldur á neikvæða stöðu, um rúmlega 4 milljarða kr ., er Hitaveita Suðurnesja, en á bæinn er skráð 35% af 11,7 milljarða kr. tapi Hitaveitu Suðurnesja 2008. Reykjanesbær stóð vaktina þegar önnur sveitarfélög seldu hlut sinn í Hitaveitunni og lögðu hagnað á ávöxtunarreikninga.“ Ég velti fyrir mér hvaða vakt Reykjanesbær hafi staðið sem Sveitarfélagið Garður stóð ekki. Sveitarfélagið Garður seldi 4,3% hlut í Hitaveitu Suðurnesja árið 2007 en átti 4,6% fyrir þá sölu. Reykjanesbær seldi um 5% hlut í Hitaveitunni árið 2007 en átti um 40% hlut fyrir þá sölu. Reykjanesbær seldi sem sagt stærri hlut en Garður.
Staðreyndin er sú að ríkið óskaði eftir tilboðum í 15% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og skilyrðið var að sveitarfélög eða aðrir opinberir aðilar mættu ekki bjóða í hlutinn. Geysir Green Energy átti hæsta tilboðið í ríkishlutinn. Við þær breytingar að einkafyrirtæki, Geysir Green Energy, ætti stóran hlut í Hitaveitu Suðurnesja mátti gera ráð fyrir að áherslur Hitaveitunnar yrðu aðrar en áður enda yfirlýst markmið þess fyrirtækis að hasla sér völl erlendis. Við mat á því hvort Garður ætti að selja hlut sinn í Hitaveitunni vóg það þyngst að Garður átti lítinn hlut, átti ekki mann í stjórn og var með öllu áhrifalaus um stjórnun og stefnu fyrirtækisins. Ljóst var að hjá Hitaveitu Suðurensja stæðu fyrir dyrum miklar fjárfestingar og allar líkur á að smærri hluthafar, eins og Garðurinn, lokuðust áhrifalausir inni í fyrirtækinu en vitað að þeir bæru fjárhagslega ábyrgð samkvæmt hlutafélagalögum. Reykjanesbær átti hlut í Geysi Green Energy og það fyrirtæki bauð einstaklega gott verð í hlut Garðs. Í ljósi þessara aðstæðna ákvað Sveitarfélagið Garður að selja sinn hlut og standa vakt um hagsmuni Garðbúa.
Oddný G. Harðardóttir
bæjarstjóri í Garði