Hvað verður um Stapann?
Rekstraraðili Stapans fór fram á það að losna undan samningi um leigu hússins, en var hafnað. Á bæjarstjórnarfundi í gær kom Stapinn til umræðu og hóf Ólafur Thordesen, Samfylkingunni, umræðuna.„Stapinn er í niðurníðslu, það er kalt í húsinu og það lítur almennt illa út", sagði Ólafur og lagði fram tillögu Samfylkingarinnar um mál Stapans. „Við undirritaðir bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggjum til að bæjarstjórn Reykjanesbæjar leysi núverandi rekstraraðila undan sanmingi um leigu á félagsheimilinu Stapa. Jafnframt verði hafnar viðræður við Kvenfélag Njarðvíkur og Ungmennafélag Njarðvíkur um hugsanleg kaup bæjarins á hlut þeirra í húsinu. Húsið verði nýtt í þágu hinna ýmsu félagasamtaka í bænum og bæjarbúa og farið í þær nauðsynlegu endurbætur sem breytt nýting kallar á. Það er skylda okkar að þetta sögufræga hús verði bæjarbúum til sóma". Ellert Eiríksson, bæjarstjóri sagði að rekstraraðili yrði ekki losaður undan samningi fyrr en í fyrsta lagi 1. apríl næstkomandi, en leigusamningurinn rennur út í júní. Einnig sagði hann að það hefði komið beiðni frá Kvenfélagi Njarðvíkur og Ungmennafélagi Njarðvíkur um að bærinn leysti til sín eignina. Erindinu var vísað til bæjarráðs.