Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvað tefur?
Sunnudagur 27. mars 2011 kl. 15:30

Hvað tefur?


Fyrir fjórum árum, þegar 1100 störf höfðu horfið á 6 mánuðum við brotthvarf hersins af Suðurnesjum var ég spurður hvað gæti tafið framgang uppbyggingar álvers í Helguvík, sem þá var hafin tæpum tveimur árum áður. Ég taldi nánast ekkert geta gert það. Orkufyrirtæki sáu þá vel fyrir sér hvernig orku yrði aflað, lóðarsamningar og umhverfismat lóðar lágu fyrir, höfn var til reiðu og engan gat grunað að ekki yrði fullur stuðningur ríkisvalds við slíkt verkefni í kjölfar stærstu hópuppsagna í sögu íslensku þjóðarinnar.

Ég hafði ekki rétt fyrir mér. Efasemdir í ráðherrahópum og þingmannahópum innan Vinstri grænna, Samfylkingar og einstaka framsóknarmanna tóku að naga verkefnið. Þrjár ríkisstjórnir hafa komið að völdum á þessum tíma. Í öllum þeirra hafa verið einhverjir ráðherrar og einhverjir þingmenn sem reyndu því miður að draga verkefnið niður.

Fyrir réttum tveimur árum samþykkti Alþingi og ríkisstjórn fjárfestingarsamning við Norðurál út af byggingu álvers í Helguvík. Með honum skyldi formlegum hindrunum ríkisins fyrir byggingu álversins rutt úr vegi. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki verið einhuga í framhaldinu. Yfirlýsingar sumra ráðherra um verkefnið hafa verið eins og þeir viti ekki af undirrituðu loforði í fjárfestingasamningi að gera ekkert sem geti hindrað framgang verkefnisins. Það olli okkur t.d. miklum áhyggjum þegar meira að segja forsætisráðherra dró ekki fram álverið í Helguvík nú fyrir nokkrum dögum þegar hún gerði tilraun til að telja upp stærstu atvinnuverkefnin framundan.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra hefur hins vegar unnið ötullega að þessu verkefni alla tíð. Hið sama má segja um þingmenn kjördæmisins. Þeir hafa verið, með einni undantekningu, einhuga um að koma þessu verkefni áfram.

En tafir ríkisstofnunar á fyrsta virkjunarleyfinu sem þarf til framkvæmdanna á Reykjanesi hafa ekki boðað gott. HS Orku er ætlað að útvega mikla orku til verkefnisins og því þarf ekki aðeins að semja um orku á vestanverðu Reykjanesi í landi Reykjanesbæjar, heldur þurfti orku af skipulagssvæði Grindvíkinga og Hafnfirðinga. Samningaumleitanir þar hafa dregist verulega þótt nú hilli undir niðurstöðu. Lítið er rætt um samninga Orkuveitu Reykjavíkur sem einnig lofaði og samdi um mikla orku í verkefnið en hefur ekki getað staðið við það aðallega vegna fjárhagserfiðleika. Stærsti eigandinn, Reykjavíkurborg, hefur ekki getað hlaupið undir bagga. Með tilkomu Magma að HS orku átti að vera tryggt að fjármagn yrði til framkvæmdanna sem sveitarfélögunum, sem fyrri eigendum, var algerlega um megn að leggja fram. Verkefnið átti því að styrkjast við þetta.

Hvað hefur tafið þessar framkvæmdir? Svarið er: Erfiðari fjármögnun í kreppu, óljós skilaboð ríkisstjórnar um þjóðnýtingaráform og vilja til uppbyggingar álvers, tafir í virkjanaleyfi sem ríkistofnun á að veita, hægfara viðræður við sveitarfélögin um orkuvinnslusvæði og ágreiningur um samningsatriði á milli orkufyrirtækjanna og Norðuráls.

Hugmyndir um að Landsvirkjun leysi úr fjárhagsvanda Orkuveitunnar í Reykjavík með því að taka yfir virkjanir sem ætlað er í orku fyrir álverið í Helguvík eru mjög af hinu góða. En þær leysa ekki skort á virkjanaleyfi á Reykjanesi eða nauðsynlega samninga um virkjanaheimildir í Eldvörpum og Krísuvík. Þær leysa heldur ekki ágreining um samningsatriði milli HS orku og Norðuráls. Það verða núverandi eigendur fyrirtækjanna að gera sjálfir. Ég fullyrði að þeir skynja allir mjög vel hina félagslegu ábyrgð sem fylgir því að ljúka þessu verkefni.

Ég tek undir með Björgvini Sigurðssyni þingmanni í grein hans í VF í gær, að það er mikilvægt að leita leiða til að leysa hnútana. Ég hef enn góðar vonir um að það verði gert. Ég vænti þess að forsvarsmenn HS orku og Norðuráls séu nú að leita leiða til að leysa sinn ágreining. Ef það gerist, verða einu fyrirvararnir í höndum ríkis og sveitarfélaga, þ.e. heimildir til virkjana á svæðum sem hafa gríðarlega mikla ónotaða orku!


Árni Sigfússon,
bæjarstjóri í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024