Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvað í ósköpunum er um að vera í öldrunarmálum í Reykjanesbæ?
Mánudagur 11. nóvember 2013 kl. 09:43

Hvað í ósköpunum er um að vera í öldrunarmálum í Reykjanesbæ?

Það er gott að vera á Nesvöllum. Ég hefi reynslu af því ég hefi rekið þar stofu á undanförnum árum. Sinnt þar fólki. Ölduðum. Hjartahlýja og unnvörpum fagmennska einkenna samskipti öll a.m.k. það sem að mér snýr. Og það er gott.

Ég hefi unnið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja frá því í febrúarbyrjun 2003. Gekk þá til liðs við hóp atvinnufólks, hjúkrunarfræðinga og lækna á sjúkrahúsi og heilsugæslu. Fljótlega var lögð fram stefna um bætta þjónustu við aldraða á svæðinu og komu til ýmsar breytingar. Markmiðið var og er að samhæfa þjónustuna og gera að samfellu: bráðameðferð, heimahjúkrun, hvíldarinnlagnir og  að lokum langtímavistun sem tekur við þegar einstaklingur getur ekki lengur verið heima. Og síðustu sporin að heiman geta verið og eru þung þótt í fínt sé að flytja. Nesvellir eru falleg híbýli, glæsilegur völlur öldruðum og þreyttum og Reykjanesbæ til sóma.

Þess vegna og einmitt þess vegna verður Hrafnistufarsinn eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Óskiljanlegur tilsýndar og óskemmtilegur að verða vitni að. Og ekki íllt orð um Hrafnistukonur og menn! Þar er líka gott fólk.

Hvaða faglegu rök liggja að baki því að slíta enn frekar frá HSS og samfélagi aldraða á Suðurnesjum einn þáttinn þar sem er langtímavistunin? Á tímum þegar  unnt hefði verið og kjörið að staldra við um stund og sameina starfsemi, og nýta enn frekar þekkingu reynslu og áhuga teymisins á  HSS. Liðs sem hefur haldið haus og vaxið þrátt fyrir þrautþjálfað atvinnuskítkast, rótgrónar Gróusögur og úlfaldasmíð.

Hvaða kannanir, rannsóknir og álit fagmanna í rekstri heilbrigðisstofnana var lagt til grundvallar?

Hvaða læknar og hjúkrunafræðingar komu þarna að verki?

Hvaða gögn voru í höndum þessa ágæta fólks og liggja að baki ákvörðuninni?

Hvaða reynslu hefur Hrafnistufólk af því að reka svona þjónustu í litlu samfélagi utan Reykjavíkur þar sem fyrir  er vel þróuð heimaþjónusta í höndum annarrar stofnunar og fólks sem hefur yfirsýn yfir þjónustuþörfina? Heilbrigðisstarfsfólks sem er með fingur á púls heimilanna þar sem aldraðir búa og hafa oft sinnt sömu einstaklingunum og fjölskyldum þeirra árum saman.

Hvernig stendur á bábyljunni miklu um „ófrávíkjanlegu skilyrði“ af hálfu HSS og yfirstjórn Reykjanesbæjar tíundar svo mjög? Básunar á síðustu metrunum. Hvernig var samræðum og samvinnu við HSS háttað, við erum jú í samaliði, eða hvað?

Hverjum gagnast mest þessi samingur? Ég dreg þá ályktun af vandræðaganginum að þar séu ekki HEILDARHAGSMUNIR ALDRAÐRA Í REYKJANESBÆ hafðir að leiðarljósi. Hverjir hagnast á gjörbreyttu fyrirkomulagi? Cui bono?  Hver er vilji fólksins? Hafa íbúar svæðisins verið spurðir? Hvar er sanngirnin í „útboðinu“?

Þegar aldraður veikist á Hrafnistuvöllum, á þá að flytja hann á sjúkradeild fyrirtækisins í Reykjavík og ef til kemur lofa honum deyja þar, fjarri sínum? Kannski fær HSS óbreytt áfram hlutverk og hingað til í því efni, en auðvitað fá þá aðrir greitt fyrir vikið. Slíkt fyrirkomulag er jú svo vinsælt og módernt nú á dögum.


Samvinna við Hrafnistu hlýtur að gera öll áform um heildræna þjónustu og meðferð mun erfiðari en ef þjónustan öll væri innan sömu stofnunar, nefnilega HSS. Og auðvitað yrði það ódýrara. Mun ódýrara vegna samlegðar. Það þarf ekki nema gripsvit tæpt til þess að sjá það.

Frá því ég kom fyrst í vinnu á HSS fyrir löngu hefur bærinn breyst mjög og unnvörpum til hins betra og sómi að. Alvörufólk að verki. Þeim mun óskiljanlegra og sorglegra er það að sjá áhættu sem tekin er með þessum nýja samningi. Ég óttast að slíkur samningur verði fótakefli í framþróun öldrunarmála á Suðurnesjum.

Sigurður Árnason læknir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024