HVAÐ HÉLDU MENN?
Kristján Pálsson, fyrrverandi bæjarstjóri og þingmaður, ritar ágætis grein í Morgunblaðið í dag [10. okt] undir fyrirsögninni: „Hver á Hitaveitu Suðurnesja á morgun?“ Fram kemur að Kristján er ósáttur við hvernig komið er fyrir Hitaveitu Suðurnesja. Hann segir að sala ríkisins til einkaaðila orki mjög tvímælis og betra hefði verið að gefa öllum almenningi kost á að kaupa hlutabréf í HS. Það er vissulega hægt að taka undir það. Niðurstaðan varð önnur og fjármálaspekúlantarnir sáu sér leik á borði og settu af stað leikfléttu sem virðist á góðri leið með að skapa einkaaðilum meirihlutaeign í Hitaveitu Suðurnesja. Eðlilegt er að íbúar hafi áhyggjur af þeirri þróun.
Varðandi allt klúðrið í Reykjavík er talað um allt of mikinn hraða. það hefði þurft að skoða málin mun betur, taka lengri tíma í umræðu um þau þannig að hægt væri að taka vel upplýsta ákvörðun.
Það kemur mér á óvart að fólk skuli nú alveg undrandi á því að það geti gerst að Hitaveita Suðurnesja verði í meirihlutaeign einkaaðila. Hvað héldu fulltrúar sveitarfélaganna þegar þeir ákváðu að selja eign sína í Hitaveitu Suðurnesja til einkaaðila. Héldu þeir virkilega að þar væri á ferðinni eitthvað góðgerðarfélag sem sætti sig við að eiga einhvern minnihluta. Reynslan hefur sýnt að hinir nýríku fjármálamenn sætta sig ekki við annað en að eignast meirihluta og selja svo fyrirtækin sín á milli og breyta nöfnum fram og aftur.
Auðvitað hljóta fulltrúar sveitarfélaganna að hafa rætt þessa hugsanlega stöðu og metið það svo að það skipti ekki máli, betra væri að fá peningina fyrir sinn hlut. Eða hvað?
Fróðlegt væri að vita hversu mikil kynning á sölu hlutabréfanna var meðal íbúa. Gafst þeim tækifæri á að tjá sig um málið? Var íbúunum gerð grein fyrir öllum þáttum málsins m.a. þeirri hugsanlegri stöðu að Hitaveita Suðurnesja yrði að mestu í einkaeign, þannig að sveitarfélögin hefðu ekkert lengur að segja um verðlagningu fyrir sölu á heitu vatni, köldu vatni og rafmagni.
Einhver sveitarfélög sendu fréttatilkynningu um málið eftir að búið var að ganga frá sölu hlutabréfanna. Það er trúlega skilningur sumra að það sé íbúalýðræði.
Þá er enginn eftir til að gæta hagsmuna fólksins á Suðurnesjum nema Reykjanesbær með sín 35% segir Kristján í grein sinni.
Hann segir einnig í greininni að það verði að setja í lög að orkulindir landsmanna verði ekki seldar erlendum aðilum eða til áhættufjárfestinga.
Auðvitað er það gott og blessað en það hlýtur að verða erfitt miðað við það sem á undan er gengið að tryggja það gagnvart Hitaveitu Suðurnesja.
Ég trúi ekki öðru en sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum hafi fullkomlega gert sér grein fyrir að þetta fjöregg Suðurnesjamanna (eins og Kristján orðar það) gæti komist í hendur einkaaðila í Reykjavík. Þeir mátu peningana meira en að eiga áfram. Það verður svo að koma í ljós hvort það var til hagsbóta fyrir íbúana eða ekki.
Kveðja
Sig.Jónsson