Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvað heitir strákurinn í Búkollu?
Fimmtudagur 22. júní 2023 kl. 06:06

Hvað heitir strákurinn í Búkollu?

Undanfarin þrjú ár hefur leikskólinn Gefnarborg í Garði tekið þátt í og verið stýriskóli í Erasmus+ verkefninu Inclusion through sensory integration eða Skynreiða með inngildingu að leiðarljósi  ásamt samstarfsleikskólum í Króatíu, Grikklandi, Rúmeníu og Svíþjóð.

Verkefnið skiptist í þrjú tímabil þar sem unnið var með læsi, útinám, sköpun og námshvetjandi umhverfi. Eftir fyrsta tímabilið heimsóttu kennarar frá hinum þátttökulöndunum leikskólann Gefnarborg og fengu að kynnast leikskólanum og umhverfinu. Síðan þá hafa verið farnar fjórar ferðir þar sem starfsmenn Gefnarborgar heimsóttu hin þátttökulöndin. Sú síðasta var farin í maí byrjun en þá fóru sex kennarar á vegum Gefnarborgar til Târgoviște í Rúmeníu. Í skólaheimsóknum til þátttökulandanna fá þátttakendur meðal annars að kynnast menningu landsins og daglegu starfi leikskólanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmið verkefnisins er að nýta skynreiðu sem aðferð til að stuðla að inngildingu innan barnahópsins. Með inngildingu er átt við að öll börn upplifi að þau tilheyri samfélaginu óháð bakgrunni það er fjárhag, menningu, tungumáli, fötlun og svo framvegis. Skynreiða (e. Sensory integration) á sér stað þegar heilinn sameinar skilaboð frá fleiri en einu skynfæri, þannig að úr verður skiljanleg heild. Hver skynjun styrkir aðra og að nýta fleiri skilningarvit hjálpar til við að festa í minni. Á meðan verkefninu stóð þróaðist sú aðferð sem við köllum Læsistengd skynjun. Þá er unnið með bækur, sögur og ljóð á þann veg að kennarar og börn leita að tækifærum til þess að vinna með skynjun út frá innihaldi textans. Með þessari nálgun fá öll börn möguleika til að upplifa söguna og öðlast skilning á sínum forsendum. Þetta hjálpar til dæmis börnum með annað móðurmál að líða vel og finna sig betur þar sem aðaláherslan er ekki lengur á talað mál. Rauðhetta og sagan um Búkollu eru dæmi um sögur sem  unnið var með í öllum löndunum. Einnig var unnið með tónlist eins og sinfóníu nr. 9 „The New World“ eftir Dvořák. Í Búkollu er hægt að skynja ýmislegt eins og bergmálið þegar kýrin baular, smakka mjólk, smjör og ost, fara í feluleiki þar sem við leitum að Búkollu, klífa fjöll og hóla og margt fleira.

Í heimsókninni til leikskólans Gradinita nr. 1 í Târgoviște í Rúmeníu fengu þátttakendur að fylgjast með samverustund barnanna. Þar var sögð sagan af Búkollu á líflegan og skemmtilegan máta. Börnin tóku virkan þátt í  flutningnum með því að festa myndir af sögupersónum á sögusvuntu kennarans. Augljóst var að börnin þekktu söguna um Búkollu vel og lifðu sig inn í söguna, þrátt fyrir gestkomendur sem fylgdust einnig með. Að sögustund lokinni bauðst börnunum að fara á mismunandi stöðvar sem áttu það sameiginlegt að tengjast sögunni. Þar var meðal annars hægt að „mjólka kú“, búa til ost, hjálpa stráknum að rata í gegnum völundarhús, teikna söguna og búa til fjós. Það var mikil uppskera fyrir íslensku gestina að sjá þjóðsöguna í nýjum búningi og frá nýju sjónarhorni. Rúmensku börnin höfðu beðið eftir tækifæri til að spyrja íslenska hópinn um nafn stráksins í sögunni Búkollu en þar var fátt um svör. Ef til vill er einhver fróður sem veit hvað strákurinn heitir?

Saga Hilma Sverrisdóttir
höfundur er leikskólakennari

Tanía Björk Gísladóttir
höfundur er jógakennari, nemi í sjúkraþjálfun og með B.a. í mannfræði