Hvað geta foreldrar gert til að bæta vellíðan barna og unglinga?
Lengi býr að fyrstu gerð segir máltækið og undir það má taka. Miklu máli skiptir að foreldrar séu meðvitaðir um hlutverk sitt, að þeir setji sér og börnum sínum mörk, reglur og markmið.
Foreldrar gegna lykilhlutverki í vellíðan barna sinna og skipta verndandi þættir hvað mestu máli en með verndandi þáttum er t.d. átt við stuðning foreldra, stuðning vina, vellíðan í skóla, íþróttaiðkun og tómstundir, góð næring og heilbrigðar svefnvenjur. Foreldrar geta einmitt haft áhrif á ofangreinda þætti t.d. með því að vera í góðu sambandi við skólann, hvetja börn til að stunda reglubundna hreyfingu, setja reglur um notkun snjalltækja eins og að börn og unglingar leggi frá sér skjátæki klukkustund fyrir svefntíma og geymi þau í hæfilegri fjarlægð á svefntíma og helst ekki í svefnherbergi, hvetja til lesturs fyrir svefninn og síðast en ekki síst með því að vera góðar fyrirmyndir.
Niðurstöður Rannsókna og greiningar um rannsókn um ungt fólk sýnir að kvíði og þunglyndi hefur aukist hjá börnum í 8.-10. bekk á undanförnum árum og þá sérstaklega hjá stúlkum. Leiddar eru líkur að því að tengsl séu á milli notkunar samskiptamiðla hjá ungu fólki og kvíða sem getur svo valdið svefnleysi. Snjallsímar og samskiptamiðlar eru stór hluti af lífi ungmenna, því verður líklega ekki breytt en það eru engu að síður ákveðnir þættir sem foreldrar geta haft áhrif á. Ef börn alast upp við hvatningu og skýr mörk frá upphafi þá er líklegra að þau temji sér betri venjur þegar þau eldast (Ungt fólk, 2016).
Anna Hulda Einarsdóttir og
Anna Sigríður Jóhannesdóttir
Verkefnastjórar FFGÍR