Hvað get ég gert fyrir bæinn minn?
– Sólmundur Friðriksson skrifar
„Hvað ertu eiginlega að pæla? Gerir þú þér grein fyrir hvað þú ert að fara út í? Menn fara ekki svona þenkjandi í pólitík því þar eru einfaldlega ákveðnar leikreglur sem verður að fylgja til að lifa af. Ertu nú viss um að þú sért tilbúinn til að taka slaginn í þessari ormagryfju?“ Eitthvað í þessum dúr voru ein viðbrögðin sem ég fékk þegar barst til tals að ég væri kominn í félagsskap fólks sem sem héti Bein leið og ætlaði að bjóða fram í næstu bæjarstjórnarkosningum í Reykjanesbæ; hóps sem vildi nýja hugsun og hegðun í pólitík og umfram allt láta gott af sér leiða til hagsbóta fyrir samfélagið okkar. Fyrir mann friðsemdar og með litla reynslu af stjórnmálum virkuðu þessi orð í fyrstu köld og harðneskjuleg, þó ég vissi líka að þau væru vel meint og mér til varnaðar. En þau vöktu mig einnig til umhugsunar um hvers vegna ég hefði tekið þessa ákvörðun. Já, hvað er ég eiginlega að pæla? Það er góð spurning sem ég verð að svara í upphafi þessarar ferðar. Ég skrifa því þessar línur sem nokkurs konar eintal við sjálfan mig til að leita svara, en þar sem ég hef boðið mig fram til starfa fyrir bæinn minn ber mér skylda að gefa fleirum hlutdeild í þessum hugleiðingum mínum.
Upp úr aldamótum tengdist ég Reykjanesbæ fyrst og hér hef ég búið meira en helming þess tíma. Svæðið hefur marga góða kosti, með hátt þjónustustig, nálægð við höfðuborgina og Leifsstöð, svo eitthvað sé nefnt. En fyrst og fremst er hér gott samfélag í einstöku umhverfi og með sína sérstöku sögu. Af þeim stöðum sem ég hef búið get ég fullyrt að ég hef tengst þessu samfélagi einna best. Hér á ég yndislega fjölskyldu og góða vini og og lít orðið á Reykjanesbæ sem bæinn minn, ekki að ég eigi hann með húð og hári heldur frekar að ég tilheyri þessu samfélagi. Hérna er mitt „heim“.
Ég hef ekki verið beinn þátttakandi í bæjarmálunum, heldur virkur almennur kjósandi og áhorfandi. Mig langar að taka meiri þátt í að móta bæinn minn og vil því geta lagt meira af mörkum en kjörseðillinn leyfir. Forvitnin og vaxandi áhugi á samfélaginu rekur mig einnig til að kynnast betur uppbyggingu stjórnkerfisins og drifhjólum bæjarins míns. Svo er öllum hollt að stíga reglulega út úr þægindahringnum og mæta krefjandi aðstæðum, og þetta er einnig kjörið tækifæri til þess.
Ég er félagsvera, hef alltaf haft mikinn áhuga á manneskjunnig og því dregist eins og segull að vinnu með fólki í lífi mínu og starfi. Ég er einnig friðelskandi maður, vil frekar verjast ofbeldi en stunda það, trúi á það góða í manninum og að í sameiningu getum við með góðum vilja bætt heiminn. Þetta kann allt að hljóma hálf væmið heimspekiþrugl í eyrum sumra en ég er lítið fyrir að vera í felulitunum - það hentar mér bara ekki. Ég hef skoðanir en er mjög óglaður til yfirlýsinga, vil nýta það vit sem mér var gefið til að vega og meta hluti, fylgja eftir mínum skoðunum en ef svo ber undir vil ég frekar skipta um skoðun en halda í þá sem heldur engu vatni. En svo kann ég líka frekar illa við að vera að láta bera á mér, trana mér fram, sem er pínu hlálegt þar sem ég dregst yfirleitt í aðstæður sem krefjast þess. Og nú er ég einmitt að gera það sem fer einna mest í taugarnar á mér hjá þeim sem í athyglina sækjast, þ.e. að rausa um sjálfan mig – best að segja þetta gott í persónulýsingunni og halda áfram með hvað ég er að pæla.
Ég er ekki sáttur við þá stöðu sem bærinn minn er í, finnst allt of mikið offors og skammsýni hafa blindað þá sem hafa staðið við stjórnvölinn, glæframennska í nafni óraunhæfrar framtíðarsýnar og sveitarfélagið rjúkandi skuldsett og eignum rúið. „Bad things happen when good people do nothing“, er umorðun á texta sem er jafngamall lýðræði nútímans, og útleggst eitthvað á þessa leið: „Slæmir hlutir gerast þegar gott fólk gerir ekkert“. Mér finnst þessi texti eiga vel við í bænum okkar í dag þar sem allt of margir hafa staðið hjá aðgerðarlausir síðustu ár. Ég vil trúa að embættisfólki gangi yfirleitt gott eitt til í ákvörðunum sínum en vindar blása á ýmsa vegu og ákvarðanir sem virka réttar á einum tíma eru svo kannski ekki til hagsbóta þegar lengdar lætur. En þá verða menn að vera tilbúnir til að leiðrétta í stað þess að réttlæta.
Þó mér finnist að margt megi betur fara vil ég ekki eyða orkunni í stöðugar ásakanir og drullukast, heldur vil ég miklu frekar horfa á hlutina eins og þeir eru á gagnrýninn og uppbyggilegan hátt. Ég vil taka þátt í að vinna með góðu fólki úr ólíkum áttum að breyta hlutunum til betri vegar. Ósamlyndi hefur ekkert gott í för með sér og ég vil ekki að bærinn minn sé vígvöllur átaka andstæðra stríðandi fylkinga, heldur miklu frekar blómlegur akur sem sáð er í af alúð og skynsemi. Þannig er honum best borgið til framtíðar.
„Sá er talinn heimskur sem opnar sína sál, ef hann kann ekki að ljúga hvað verður um hann þá?“, segir í margsungnu rokklagi söngvaskáldsins góða. Hér er ég búinn að opna mig og upplýsi í leiðinni að ég er afleitur lygari. Að því gefnu og ef farið væri eftir varnaðarorðum viðmælanda míns hér í upphafi greinar, þá ætti ég ekkert erindi í pólitíkina. En ég er á öðru máli því ég trúi að með samhentu átaki góðs fólks úr ólíkum áttum takist okkur að vinna að framgangi góðra mála og bæta bæinn okkar. Þá breytum við áðurnefndri setningu í : „Góðir hlutir gerast þegar gott fólk hefst handa!“
Sólmundur Friðriksson
í framboði fyrir Beina leið.