Hvað gera iðjuþjálfar?
Í dag er alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar. Iðjuþjálfun er ung og vaxandi faggrein á Íslandi og eru rúmlega 200 iðjuþjálfar starfandi á fjölbreyttum vettvangi, en í ár fagnar Iðjuþjálfafélagið 35 ára afmæli sínu. Hér á landi er iðjuþjálfun fjögurra ára nám til BS gráðu, kennd við Háskólann á Akureyri í staðar- og fjarnámi, sem veitir fólki tækifæri til að stunda námið óháð búsetu.
Þrír iðjuþjálfanemar á fjórða ári undirbúa nú lokaverkefni sitt frá Háskólanum á Akureyri, þeir ætla að kanna ástæður brottfalls ungs fólks frá Suðurnesjum úr framhaldsskóla. Tölur Hagstofunnar sýna að hlutfall þeirra sem ekki ljúka framhaldsskólanámi er hærra á þessu svæði en annars staðar á landinu. Tilgangur verkefnisins er að kanna hverjar gætu verið helstu ástæður fyrir brottfalli úr námi og hvort iðjuþjálfar geti komið inn í skólastarfið og unnið með þeim einstaklingum sem stefna í brottfall.?Helsta verkfæri iðjuþjálfa er iðjan sjálf sem fólk stundar. Átt er við allt það sem fólk gerir í sínu daglega lífi í þeim tilgangi að annast sig og sína, vinna ýmis störf er nýtast samfélaginu og njóta þess sem lífið hefur að bjóða. Þó þessi viðfangsefni virðist einföld fyrir marga, þá geta þau verið erfið og jafnvel óyfirstíganleg fyrir aðra sem hafa tapað fyrri færni eða ekki þroskast eðlilega, hafa fengið sjúkdóma, eru komnir á efri ár eða hafa orðið fyrir áföllum af einhverju tagi.?Starfsvettvangur iðjuþjálfa er á sviði heilbrigðis-, félags- og menntamála, þeir starfa t.d. í heilsugæslunni, á endurhæfingarstofnunum, á hjúkrunarheimilum og í skólum. Einnig hjá fyrirtækjum eða sjálfstætt sem ráðgjafar til dæmis tengt heilsueflingu og forvarnarstarfi.?Það mikla atvinnuleysi sem hefur verið viðvarandi síðustu ár hefur orðið til þess að fólk þarf aðstoð til að takast á við ný hlutverk, efla starfshæfni og auka þar með velferð sína og lífsgæði. Þekkt er að örorka eykst á tímum atvinnuleysis og brýnt er að fólk hljóti þá aðstoð sem það þarf. Á þeim tímum sem við lifum í dag er því enn mikilvægara en fyrr að iðjuþjálfar verði aðgengilegir fyrir fólk úti í samfélaginu.
Herdís Halldórsdóttir, Helga Jakobsdóttir og Sunna Björg Hafsteinsdóttir, 4. árs nemar í iðjuþjálfun.
Hvað gera iðjuþjálfar?
- sjá styrkleika fremur en veikleika
- finna hagkvæmar og góðar lausnir
- efla félagsfærni
- veita ráðgjöf um líkamsbeitingu við vinnu
- efla áhugahvöt og trú á eigin áhrifamátt
- meta þörf fyrir hjálpartæki - þjálfa fólk í notkun þeirra
- og margt fleira.