Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Hvað felst í að vera fjölskyldubær?
  • Hvað felst í að vera fjölskyldubær?
Mánudagur 28. apríl 2014 kl. 09:16

Hvað felst í að vera fjölskyldubær?

- Björk Þorsteinsdóttir skrifar

Áður fyrr var oft talað um bæinn okkar sem sjávarbæ eða jafnvel bítlabæ.  Reykjanesbær, sameinað sveitarfélag Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna, á 20 ára afmæli á þessu ári.  Bærinn okkar hefur nú fengið það jákvæða orð á sig að vera nefndur fjölskyldubær og er það ekki af ástæðulausu.
 
Af hverju fjölskyldubær? Hér er markvisst unnið að því að fjölskyldum og einstaklingum á öllum aldri  líði og farnist sem best.  Ungt fólk er lífsglatt og fer með jákvæðni út í lífið. Svo þegar kemur að því að stofna til fjölskyldu breytist forgangsröðunin.  Val á búsetukostum verður mikilvægt og framtíðarsýn bæjaryfirvalda varðandi atvinnu, samgöngur og skóla- og tómstundamál skipta miklu máli. Við fæðingu barns fer velferð barnsins í fyrsta sæti.  Síðar á lífsleiðinni eru það síðan aðrir þættir sem skipta þá meira máli.  Hverju æviskeiði fylgja ákveðnir grunnþættir sem mikilvægt er að hyggja vel að hverju sinni.
 
Í Reykjanesbæ eru fjölbreyttir og vandaðir leik- og grunnskólar, íþrótta og tómstundastarf er til fyrirmyndar og samgöngur góðar.  Vinir mínir í nágrannasveitarfélaginu Hafnarfirði líta sumir öfundaraugum á þá staðreynd að tónlistarnám yngstu barnanna er iðkað inni í skólunum á skólatíma og fyrstu tvö árin eru fyrir öll börn.  Skipulagðar skólaheimsóknir eru í Listasafnið, fríar strætósamgöngur og einnig er frítt í sund og söfn. Allt þetta stuðlar að heilbrigðu og uppbyggilegu umhverfi fyrir börn og unglinga. Á hverju ári eru haldnir viðburðir sem stuðla að góðri samveru fjölskyldna svo sem Ljósanótt, Barnahátíðin og List án landamæra ásamt fjölmörgum öðrum uppákomum sem eru gjaldfrjálsar fyrir alla.
 
Sífellt er verið að leita leiða til þess að bæta umhverfið,  auka umferðaröryggi, koma á nýjum gönguleiðum og auka á fjölbreytileika í allskyns afþreyingu fyrir íbúa.  Má þar m.a. nefna strandleiðina, tilkomu Hljómahallarinnar og Ungmennagarðsins.
 
Vissulega er alltaf hægt að gera gott betra og eru skólarnir í sífelldu endurmati hvernig hægt sé að gera enn betur. Sama á við um alla aðra þjónustu bæjarins.  Kostnaði á heitum skólamáltíðum er haldið í lágmarki og ávallt er reynt að kappkosta að bæta aðstöðu nemenda.
 
Ný atvinnutækifæri blasa við í Reykjanesbæ sem munu stuðla að enn meiri grósku og uppbyggingu í sveitarfélaginu. Einn mikilvægasti þátturinn, þegar ég ákvað hvar ég vildi búa með minni fjölskyldu, var hversu stutt er í alla þjónustu í Reykjanesbæ og hversu vel sveitarfélagið hefur stutt við barnafjölskyldur.
 
Framtíðarsýn bæjaryfirvalda birtist m.a. með opnun glæsilegs hjúkrunarheimilis að Nesvöllum þar sem fyrsta flokks aðbúnaður er fyrir eldri borgara.  Í Reykjanesbæ er best að búa þar sem tekist hefur að skapa fjölskylduvænt umhverfi fyrir barnafjölskyldur og alla íbúa. Höldum áfram á sömu braut með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.
 
Björk Þorsteinsdóttir 
Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024