Hvað eru krakkarnir að gera?
„Það er alltaf svo rosalega gaman um áramótin, þau eru miklu skemmtilegri en jólin” sagði lítill drengur við mig um daginn. Margir taka undir þetta og þá ekki hvað síst karlmenn og skiptir þá litlu máli á hvaða aldri þeir eru. Flugeldar eiga hug þeirra allan á þessum tíma og því stærri sem þeir eru því betra.
Ákveðin lög gilda um flugelda og þau eru ekki sett að ástæðulausu. Bannað er að selja þeim sem eru yngri en 16 ára vörur sem hætta getur stafað af ef staðið er í minna en eins metra fjarlægð frá þeim. Þumalfingursreglan er sú að ekki má selja krökkum yngri en 16 ára neitt sem hefur kveikiþráð. Hið sama á við um rokeldspýtur. Aldursleiðbeiningar er að finna á öllum vörum sem seldar eru á flugeldamörkuðum björgunarsveitanna, þ.e. hvaða aldurshópur má meðhöndla vöruna, og jafnframt hvernig bera eigi sig að við meðhöndlun hennar. Ef farið er eftir þessum leiðbeiningum í einu og öllu stafar lítil hætta af flugeldunum.
Því miður stunda mörg börn, og þá sérstaklega strákar, þann hættulega leik að breyta eiginleikum flugelda á einn eða annan hátt. Þeir eru teknir í sundur, púðri safnað saman eða annað gert sem e.t.v. gefur þeim aukinn sprengikraft. Verða alvarlegustu slysin oft á tíðum við þessa iðju þeirra. Á bak við hverja flugeldategund liggja ákveðnar prófanir sem tryggja eiga að flugeldurinn sé sem öruggastur. Ef búið er að breyta þeim eiginleikum er engan veginn hægt að vita hvernig flugeldurinn springur, hversu hratt það gerist eða hver krafturinn verður. Flestir áverkar sem hljótast af svona fikti verða á höndum og andliti þeirra sem ekki hafa náð að koma sér í örugga fjarlægð þegar flugeldurinn springur.
Miklu máli skiptir að foreldrar fylgist vel með börnum sínum á þessum árstíma og vita hvað þau eru að fást við. Foreldrum ber að gæta þess að börn séu ekki að sýsla með flugeldavörur án eftirlits fullorðinna. Flest flugeldatengd slys á börnum verða dagana fyrir og eftir áramótin en ekki á sjálfu gamlárskvöldinu. Þá eru flest börnin með foreldrum sínum að skjóta upp og því undir virku eftirliti. Fullorðnir karlmenn eru hins vegar í meirihluta þeirra sem slasast á gamlárskvöld og nýársnótt.
Aldrei er of varlega farið í umgengni við flugelda. Foreldrar verða að sýna gott fordæmi með því að umgangast flugeldana á réttan hátt og fara í hvívetna eftir þeim leiðbeiningum sem fylgja vörunni. Allir ættu að nota flugeldagleraugu, líka þeir sem aðeins eru að fylgjast með. Skinn- eða ullarhanskar verja hendur og auðvitað á enginn sem er undir áhrifum áfengis að meðhöndla flugelda. Sé farið eftir þessum einföldu varúðarreglum ættu allir að eiga ánægjuleg og slysalaus áramót.
Sigrún A. Þorsteinsdóttir
Sviðstjóri slysavarnasviðs
Slysavarnafélaginu Landsbjörg