Hvað er til bjargar?
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra minntist ekki á álver í Helguvík þegar hún taldi upp fyrirhugaðar stórframkvæmdir hér á landi á Alþingi í vikunni. Skýringin kann að vera sú að ekki er til staðar orka á Reykjanesi sem dugir fyrir álverið. Orkustofnun hefur lagst gegn stækkun Reykjanesvirkjunar a.m.k. fyrst um sinn og á meðan bíður túrbínan í sínum umbúðum úti á nesi engum til gagns. Sú framkvæmd sem við blasti og átti að skila um tíu þúsund ársverkum á byggingartíma og skapa um tvö þúsund varanleg störf er komin í verulegt uppnám og óvíst að af henni verði.
Í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir ber öllum saman um mikilvægi þess að efla atvinnustigið. Það er grunnurinn að kjarabótum til lengri tíma litið og forsenda þess að kjarasamningar náist. Hagkerfið þarf innspýtingu fjármagns, ekki síst erlendar fjárfestingar ef hagvöxtur á að aukast þannig að atvinnuleysið minnki og kaupmáttur aukist. Nú eru horfurnar frekar neikvæðar. Þess vegna er enn mikilvægara að ríkisvaldið beiti sér sérstaklega fyrir stórátaki og þá dugir ekki bara stækkun álversins í Straumsvík, Búðarhálsvirkjun, kísilmálmverksmiðja í Helguvík, hreinkísilverksmiðja í Grindavík og natríumklóratverksmiðja á Grundartanga. Þessar framkvæmdir skapa rúmlega tvö þúsund ársverk og um fimm til sex hundurð varanleg störf. Betur má ef duga skal. Nærtækasta og öflugasta verkefnið er enn og aftur álverið í Helguvík, en þá þarf að virkja í neðri hluta Þjórsár. Þar stendur hnífurinn í kúnni.
Umhverfisráðherra reyndi sem kunnugt er að beita lagaklækjum til að hindra þá framkvæmd en féll á prófinu í Hæstarétti. Þá grípur Vinstri hreyfingin grænt framboð til þess ráðs að beita Landsvikjun húsbóndavaldi ríkisins og bannar að virkja við Urriðafoss í Þjórsá, þótt nú sé ljóst eftir dóm Hæstaréttar að Landsvikjun hefur skipulagið með og svo auðvitað vatns- og virkjanaréttinn.
Það þarf a.m.k. 160 milljarða fjárfestingu í hagkerfið á næstu þrem árum ef við eigum að komast út úr þeim efnahagsvanda sem við er að glíma. Þessi fjárfesting mun skila ríkissjóði auknum tekjum, minna atvinnuleysi og um leið minni skerðingum á opinberri þjónustu. Komi þessi fjárfesting ekki til þarf að skerða enn meira á spítölum og í skólunum, draga úr þjónustu ríkis- og sveitarfélaga, hækka álögur og atvinnuleysið mun aukast en ekki minnka og er það þó ærið fyrir. Ef ríkisstjórnin velur þá leið á hún ekki lengur erindi. Þá er hún að velja þá leið sem heldur kaupmætti niðri og varanlegri fátækt. Íslenska kotsamfélagið verður að veruleika. Samfylkingin verður að taka af skarið um atvinnuskapandi verkefni í ríkisstjórninni. Þar munar mest um Helguvík og virkjun í neðri hluta Þjórsár. Vilji Vinstri grænir það ekki á að slíta þessu stjórnarsamstarfi og taka höndum saman við þá sem þora og duga.
Skúli Thoroddsen, Keflavík