Hvað er það sem Arion banki skilur ekki?
Verkfræðistofan Verkís hefur fyrir hönd Arion banka (Stakkbergs) auglýst drög að tillögu að matsáætlun vegna nýs umhverfismats kísilverksmiðju félagsins í Helguvík og óskað eftir athugasemdum frá almenningi.
Undirritaður sér svo sem enga sérstaka ástæðu til að skrifa athugasemdir við plagg sem skrifað er af hagsmunaðila fyrir hagsmunaaðila með hálfs mánaðar athugasemdafresti. Í sjálfu sér hefur þetta plagg enga lögformlega merkingu fyrir almenning. Matið er byggt að verulegu leiti á fyrra mati, sem var falsað eins og öllum er kunnugt um. Þetta er því ekki merkilegur pappír og engin ástæða til að eyða púðri í hann. Það verður hins vegar gert þegar hið opinbera, lögformlega ferli fer í gang á vegum Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar. Að loknu því ferli mun kæruréttur til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála einnig verða nýttur til fulls, geri ég fastlega ráð fyrir.
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðist það hafa farið alveg fram hjá stjórnendum Arion banka að bæjarbúar í Reykjanesbæ hafa fengið sig gjörsamlega fullsadda af þessari verksmiðju og vilja hana í burtu. Þeir vilja að hún hverfi af yfirborði jarðar. Arion banka ætti að vera þetta ljóst eftir allt sem á undan er gengið. Samt skal haldið áfram. Hvað er það sem Arion banki skilur ekki?
Þeir ætla sér greinilega að hunsa vija bæjarbúa og fara í stríð við þá, - enn og aftur. Verði þeim að góðu. Þá ætti þeim líka að vera ljóst að þessi verksmiðja er í engu samræmi við stefnu og vilja núverandi bæjaryfirvalda, svona svo tekið sé mið af því sem bæjarfulltrúar hins nýja meirihluta sögðu fyrir kosningar um þetta verksmiðjubrölt andskotans.
Í ljósi þess sé ég það ekki fyrir mér að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ gefi út framkvæmdaleyfi fyrir þennan ófögnuð í trássi við eigin vilja og stefnu. Eða gegn vilja bæjarbúa. Af sömu ástæðu ættu bæjaryfirvöld auðvitað að hafna breytingum á skipulagi sem ætlað er til þess að ólöglegar, of háar byggingar, verði löglegar.
Ef það er raunveruleg samstaða gegn þessu innan meirihlutans í bæjarstjórn, sé tekið mið af því sem sagt var fyrir kosningar, gerir Arion banki sér auðvitað grein fyrir því. Hann mun því reyna að rjúfa þessa samstöðu, líkt og Landsnet gerði í Vogum þegar þeir fengu Suðurnesjalínuna samþykkta. Fulltrúar Landsnets funduðu eingöngu með þeim aðilum innan bæjarstjórnarinnar sem þeir töldu að þeir gætu unnið á sitt band. Þeim tókst þannig að rjúfa samstöðuna og einangra þá sem harðast voru á móti línunni. Arion banki mun reyna það sama hér og er líklega byrjaður á því. Vonandi tekst það ekki. Vonandi ber þessu fólki gæfa til að standa í lappirnar.
Ellert Grétarsson
,
íbúi í Reykjanesbæ.
íbúi í Reykjanesbæ.