Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvað er heyrnarmæling á nýburum og til hvers?
Föstudagur 9. september 2011 kl. 10:59

Hvað er heyrnarmæling á nýburum og til hvers?


Árið 2007 hófst skimun, að frumkvæði og á ábyrgð Heyrnar- og talmeinastöðvar, á heyrn allra nýfæddra barna á Landspítalanum. Skimunin er framkvæmd með mjög einfaldri aðferð, sem er mæling á endurkasti hljóðs frá hárfrumum í kuðungi innra eyrans, Otoacustic Emissions. Mælingin er ekki meira álag á barnið en t.d. að mæla hitann með eyrnahitamæli. Eyrun þurfa  að vera laus við sjúkdóma s.s bólgur og vökva. Dragist að gera þessa mælingu verður ekki lengur hægt að treysta því, að barnið liggi kyrrt þann tíma, sem til þarf, eða sé með ósýkt eyru.

Öllum er frjálst að koma með ungbörn sín til skimunar á heyrn á Heyrnar- og talmeinastöð og mælingin þá framkvæmd þar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á föstudögum er opinn tími fyrir þessar mælingar kl 12:30-14:00 og má þá koma án þess að eiga pantaðan tíma. Sé ekki hægt að notfæra sér það er hægt að panta sérstakan tíma með stuttum fyrirvara.

Eftir að skimun á heyrn nýbura hófst á Íslandi hafa fundist á annan tug ungbarna nokkurra vikna með misalvarlega heyrnarskerðingu eða heyrnarleysi og meðferð hófst strax í kjölfarið. Greiningaraldur var áður um 2 til 6 ára eftir alvarleika skerðingarinnar. Á þeim aldri er bróðurpartur máltökuskeiðsins liðinn, afar dýrmætur tími, sem ekki kemur aftur. Með íhlutun strax við fæðingu næst þessi mikilvægi tími til uppbyggingar á máli.

Með þessari aðferð má ætla að liðlega 80% allra barna með heyrnarskerðingu finnist svo snemma. Hin 20% eru þau börn sem fæðast heyrandi en missa heyrnina smám saman sem þó getur gerst mjög mismunandi hratt. Hagstæð niðurstaða úr skimun losar okkur því ekki undan þeirri skyldu að vera áfram á verði.

Í nýlegri stórri hollenskri rannsókn, (Korver AM et.al, JAMA, Journal of the American Medical Assosiation 20. október 2010) eru borin saman áhrif heyrnarskimunar á nýfæddum börnum  og skimun á heyrn með öðrum aðferðum við 9 mánaða aldur.

Öll börn fædd í Hollandi á árunum 2003, 2004 og 2005 voru skoðuð. Við 3-5 ára aldur voru þau, sem greinst höfðu með varanlega heyrnarskerðingu rannsökuð með þrennt í huga: frammistöðu (uppeldi og tjáskiptahæfni á talmáli og táknmáli), þroska (á almennu og málfarslegu sviði) og lífsgæði. Rannsókninni lauk í desember 2009. Enginn munur var milli hópanna í upphafi á tjáskiptaaðferðum eða tegund uppeldisaðferða.

Niðurstaðan reyndist í stuttu máli sú, að á öllum sviðunum var staðan betri við 3-5 ára aldur hjá þeim börnum sem höfðu greinst á fyrstu vikum ævinnar með OAE skimun heldur en hjá hinum hópnum.

Við leggjum áherslu á þá staðreynd að ekki er nóg að greina heyrnarskerðinguna snemma, heldur er það íhlutunin í kjölfarið, sem öllu máli skiptir að komi fljótt til eigi barnið að ná góðum mál-, samskipta- og félagsþroska.

Fleiri rannsóknir, nýlegar, sýna okkur svipaðar niðurstöður.

Það má því leiða sterkar líkur að því, að því fyrr sem heyrnarskerðing barna greinist því miklu betra sé það fyrir barnið og um leið allt umhverfi þess.

Því er ástæða til að hvetja alla foreldra eindregið til að koma með nýfædd börn sín til þessarar einföldu mælingar á Heyrnar- og talmeinastöð. Það getur skipt sköpum.

Bryndís Guðmundsdóttir
Heyrnarfræðingur barna, HTÍ