Hugsum um velferð fjölskyldunnar
Kreppuástandi eins og núna ríkir á Íslandi fylgir aukin drykkja áfengis og vandamál sem því fylgja. Við heyrum í fréttum að áfengisneysla fari vaxandi og að þeim fjölgi sem leita til SÁÁ vegna áfengisvandamála.
Eitt af þeim vandamálum sem fylgja áfengisneyslu er ofbeldi. Heimilisofbeldi er því miður algengur fylgifiskur. Oftar en ekki eru það karlmenn sem leggja hendur á konur sínar og beita þær ofbeldi. Börnin lenda á milli foreldra sinna og upplifa þær hörmungar sem ganga yfir heimilið. Við heyrum af því í fréttum að eiginkonur flýja heimilið og fjölskyldur eru leystar upp. Barnaverndarnefndir koma ungum börnum fyrir á fósturheimilum og fjölskyldulífið er í rúst.
Það er ljóst að fólk reyndir að drekka frá sér erfiðleikana, en dapurlegur raunveruleikinn nær að brjótast úr í ölvuninni og þá er voðinn vís á heimliunum. Fólk þarf að ræða málefni fjölskyldunnar í bróðerni án þess að vera undir áhrifum áfengis. Fólk á að vera óhrætt að leita hjálpar ef það á erfitt með tilfinningar sínar. Fjölmargir geta komið að og hjálpað og tryggt ánægjulegra fjölskyldulíf. Það á enginn að þurfa að lifa við ofbeldi eða að fjölskyldan sé leyst upp vegna vanlíðan sem reynt er að drekkja í áfengi. Hugsum um velferð fjölskyldunnar. Tölum saman.
Birgitta Jónsdóttir Klasen