Karlakórinn
Karlakórinn

Aðsent

Hugleiðingar um snjallsímanotkun
Laugardagur 30. september 2023 kl. 06:38

Hugleiðingar um snjallsímanotkun

Er heilbrigð notkun snjallsíma í menntunar- og afþreyingarskyni lykill að því að nýta kosti tækninnar sem nemendur hafa aðgengi að? Þessi grein er skrifuð í aðdraganda málþings um „Snjallsímanotkun og samfélag ungmenna í grunnskólum Reykjanesbæjar“ sem haldið er í Hljómahöll miðvikudaginn 27. september 2023. Þegar vafrað er um netið í leit að umræðu um notkun snjallsíma í skólum á Íslandi koma upp margar ólíkar skoðanir. Einstaka skólar hafa bannað símanotkun, aðrir eru að velta fyrir sér símabanni. Flestir taka þátt í umræðunni hvort sem það er starfsfólk í grunn- eða framhaldsskólum.

Undirrituð hefur alla tíð sem fagmaður verið hlynnt því að nýta tæknina í skólastarfi og þar á meðal stutt við notkun snjallsíma í unglingadeild. Umsjónarbekkur í ákveðnum grunnskóla í Reykjanesbæ var með sameiginlega Instagramsíðu og deildi myndum úr ljósmyndakeppni innan skólans og formum úr náttúrunni í stærðfræðinámi. Það hefði verið flóknara ef nemendur hefðu ekki notað sína eigin snjallsíma.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hverjir eru kostir þess að nemendur noti snjallsíma?

Hægt er að nota snjallsíma í kennslustofunni sem verkfæri til náms. Með notkun snjallsíma hafa nemendur aðgang að upplýsingum, fræðsluefni og kennsluforritum. Forritin innihalda oft gagnvirkar æfingar, skyndipróf, myndir, myndbönd og texta. Nemendur nota snjallsímaforrit fyrir tímastjórnun. Nemendur fá aðgang að rafbókum, hljóðbókum og bókasöfnum. Snjallsímar hjálpa nemendum við tungumálanám. Nemendur nota skilaboða- og samskiptaforrit í hópverkefnum, deila athugasemdum og ræða námskeið. Öpp eins og Slido, Menti og Kahoot ýta undir gagnvirkni í kennslustofu. Fræðslugátt Menntamálastofnunar, heimasíður fagkennara, YouTube, Khan Academy og ýmsir fræðsluvefir innihalda myndbönd og fræðsluefni. Nemendur fylgjast með fréttum og atburðum líðandi stundar í gegnum fréttaforrit og vefsíður, ýmist fyrir rannsóknarverkefni eða almenna þekkingu. Snjallsímar innihalda öflugar myndavélar og klippiforrit fyrir margmiðlunarverkefni. Snjallsímum fylgja forrit sem aðstoða nemendur með fötlun eða sértæka námsörðugleika. Nemendur geyma skrár, skjöl og verkefni í skýjalausnum sem þeir deila og vinna með samnemendum og kennurum. Snjallsímar gera nemendum kleift að fletta upp staðreyndum, skilgreiningum, jöfnum, formúlum og öðru í kennslustundum.

Það þarf að upplýsa nemendur og gefa þeim færi á að prófa öppin og síðurnar á skólatíma ef það hjálpar við námið. Kennarar og starfsmenn skóla gegna þar lykilhlutverki. Ef nemandinn kynnist efni sem hjálpar honum í náminu og það hentar honum að nota símann þá er til margs að vinna. Þrátt fyrir þessa upptalningu á kostum þess að nýta snjallsíma við kennslu þá er mikilvægt að ræða um galla mikillar og ómarkvissrar snjallsímanotkunar.

Snjallsímafíkn

Snjallsímafíkn, eða „smartphone addiction“ á ensku, er hugtak sem lýsir því þegar einstaklingur er háður mikilli notkun snjallsíma. Þetta getur haft neikvæð áhrif á líf einstaklingsins. Hægt er að fylgjast með snjallsímanotkun og leita leiða til að stjórna henni. Ef einstaklingur á erfitt með að leggja símann frá sér og er mögulega haldinn fíkn getur verið nauðsynlegt að leita sérfræðiálits og stuðnings hjá námsráðgjafa eða sálfræðingi. Guðrún Kristín Hjartardóttir skrifaði lokaverkefni í félagsfræði árið 2016 um snjallsímafíkn og dregur fram fimm einkenni snjallsímafíknar. Fyrsta einkennið er hunsun á skaðlegum afleiðingum snjallsímanotkunar, nemar koma oft seint í skóla, vinnu eða á fundi vegna ofnotkunar snjallsíma. Annað einkennið er eirðarleysi. Nemar hugsa mikið um snjallsímann og langar að nota hann. Þá hlakkar til að fara í snjallsímann aftur og hafa ekki stjórn á notkun. Þriðja einkennið er vanhæfni til að stjórna löngun í að nota snjallsímann. Þetta fólst í erfiðleikum nema til að hætta eða minnka notkun snjallsíma þrátt fyrir kvartanir frá vinum og fjölskyldu. Fjórða einkennið er minnkandi afköst í námi eða vinnu. Ástæðan var sú að á meðan snjallsímanotkuninni stóð minnkuðu áhyggjur af öðrum vandamálum eins og áhyggjur af skilafresti verkefna eða álags í vinnu. Fimmta og síðasta einkennið er kvíði og að vera utangátta. Nemar fundu fyrir kvíða og eirðarleysi til dæmis ef snjallsími þeirra var ótengdur eða hleðslulaus.

Íslenskur veruleiki er þannig að börn eiga snjallsíma og eru vel nettengd. Þessa dagana er verið að leggja fyrir könnun í framhaldsskólum sem allir átján ára og yngri geta svarað. Könnunin ber yfirskriftina Ungmenni/börn og netmiðlar og er á vegum Menntavísindastofnunar. Það verður áhugavert að sjá niðurstöður úr henni þegar þar að kemur og fylgjast með umræðum í kjölfarið. Könnunin mun leiða í ljós hvort ungmenni séu að gera meira en að spjalla, deila upplýsingum, versla, horfa á matreiðsluþætti, deila myndum, skrolla á TikTok og vera virk á SnapChat eða Instagram. Ég býð allavega spennt.

Að lokum í þessum hugleiðingum birtast nokkrir punktar sem ég vann með punktum frá gervigreind https://chat.openai.com um hvernig kennarar geta hjálpað nemendum að forðast snjallsímafíkn.

Hvernig geta kennarar hjálpað nemendum að forðast snjallsímafíkn?

  1. Vitundarvakning:
    Auka þarf hjá nemendum með einum eða öðrum hætti meðvitund um einkenni snjallsímafíknar. Einkenni snjallsímafíknar eru meðal annars; stöðug notkun á snjallsíma yfir daginn, vanræksla á verkefnum og kvíði þegar síminn er ekki í notkun. Neikvæðar afleiðingar snjallsímafíknar geta verið; skertur námsárangur, truflun á svefni, einbeitingaskortur og skert félagsleg samskipti.
  2. Settu mörk:
    Hvetja nemendur til að setja skýr mörk fyrir snjallsímanotkun. Benda á notkun snjallsímastillinga eins og „Ónáðið ekki“-stillingu í kennslustundum og á viðburðum. Kenndu nemendum gagnrýna hugsun til að meta efni sem þeir sjá á netinu.
  3. Tímastjórnun:
    Kenndu nemendum tímastjórnun. Tímastjórnun getur dregið úr stöðugri snjallsímanotkun. Til eru forrit sem takmarka skjátíma.
  4. Tómstundir:
    Hvetja nemendur til að taka þátt í tómstundum og áhugamálum án nettengingar. Íþróttir, hreyfing, lestur, samvera með vinum og fjölskyldu gætu verið án nettengingar.
  5. Fyrirmynd:
    Vertu fyrirmynd um ábyrga snjallsímanotkun. Þegar nemendur sjá ábyrga hegðun er líklegra að þeir líki eftir henni. Skildu snjallsímann eftir þegar þú ert í kringum nemendur, veittu þeim fulla athygli og láttu símann eða snjallúrið ekki trufla samskipti við nemendur.
  6. Jafningjastuðningur:
    Taktu þátt í eða búðu til umræðugrundvöll þar sem nemendur geta rætt opinskátt um áskoranir sínar með snjallsímanotkun og deilt aðferðum til að stjórna þeim.
  7. Skjálaus/snjallsímalaus dagur:
    Skoraðu á nemendur að vera með skjálausa/snjallsímalausa daga eða helgar með því að aftengjast tækjum sínum algjörlega.
  8. Þátttaka foreldra:
    Þegar það á við þarf að hvetja foreldra að ræða við börn um ábyrga símanotkun og framfylgja reglum um skjátíma. Foreldrar geta nálgast öpp til að takmarka bæði skjátíma og aðgang að ýmsum vefsíðum.
  9. Núvitund og vellíðan:
    Núvitundaræfingar hjálpa nemendum að stjórna kvíða og streitu af óhóflegri snjallsímanotkun. Spjallaðu við nemendur um símanotkun og áskoranir sem þeir standa frammi fyrir. Veittu svigrúm fyrir samræðu og stuðning.

Er þetta ekki ágætis byrjun að vitundarvakningu um heilbrigða snjallsímanotkun nemenda? Gangi okkur öllum vel.

Ingigerður Sæmundsdóttir,
forstöðumaður Menntaskólans á Ásbrú.