Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Miðvikudagur 18. júlí 2001 kl. 10:07

Hugleiðing um fjölskylduna og Verslunarmannahelgina

Verslunarmannahelgin nálgast og þurfa foreldrar að vera opnir og skapandi í að finna leiðir með unglingunum sem eru jákvæðar og undir eftirliti. Ef unglinginum finnst miklu skipta að fara á „útihátið”, eru vímulausar fjölskylduhátíðir einn möguleiki. Einar Gylfi Jónsson sálfræðingur segir í Forvarnarbókinni,
„Áfengi er það vímuefni sem þorri unglinga byrjar á að nota og er því í flestum tilvikum upphafið af þeirri neikvæðu þróun í lífi stórs hóps unglinga sem við öll höfum verulegar áhyggjur af. Hvað sem líkamsþroska líður er ljóst að 13-16 ára unglingar eiga eftir að stíga mikilvæg skref í vitsmuna-, tilfinninga- og félagsþroska. Þá skortir því hæfni til að meta aðstæður og vinna úr þeirri reynslu sem þeir verða fyrir, hæfni sem þeir eiga eftir að öðlast með auknum þroska. Þessi aldurshópur er því almennt séð ekki tilbúinn að gera tilraunir með að breyta vitundarástandi sínu með vímuefnum. Líkurnar á að eitthvað fari úrskeiðis eru mun meiri en síðar verður,“ og þar hitti hann naglann á höfuðið.
Er ég las þetta hugsaði ég um krakkana sem eiga eftir að upplifa sína fyrstu, eða eina af sínum fyrstu, kynlífsreynslu undir áhrifum áfengis núna á næstunni eða um Verslunarmannahelgina. Daginn eftir þegar að þau koma til sjálfs síns aftur og átta sig á hvað þau gerðu, upplifa þau mikla vanlíðan. Jafnvel það mikla vanlíðan að það hefur varanleg áhrif á sjálfsvirðingu þeirra.
Einar Gylfi segir að neysla áfengis sé byrjunin á neikvæða lífstílnum sem við viljum ekki að börnin okkar lendi í. Við foreldrar höfum mikla ábyrgð í þessu máli. Það að segja við börnin okkar að þau eigi ekki að nota áfengi og misnota það síðan sjálf, eru vafasöm skilaboð sem geta flækt líf barna okkar enn meira.
Ágætu foreldrar, við sjáum það alls staðar í kringum okkar að það að vera foreldri og vilja börnunum sínum það besta er ekki auðvelt. Það að vera foreldri unglings er finnst mörgum erfiðasta tímabilið í foreldrahlutverkinu. Að hjálpa börnunum okkar að upplifa unglingsárin án áfengis er göfugt markmið. Ég tel að það sé vel þess virði að skipuleggja fjölskyldulífið með það í huga að styðja unglinginn í að upplifa þessi dýrmætu ár án vímu. Takist okkur það þá gefur það okkur svo mikið þegar að við lítum yfir farin veg.

Með vinsemd, Ólafur Grétar Gunnarsson
verkefnisstjóri og ráðgjafi Reykjanesbær á réttu róli.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024