Hugleiðing í kjölfar undirritunar kjarasamninga
Mig langaði með þessari hugleiðingu að benda á nokkur atriði vegna umfjöllunar fjölmiðla um nýgerðan kjarasamning.
Svo virðist sem allir þeir sem neituðu að skrifa undir kjarasamninginn (5% af hópnum) fái umfjöllun í fjölmiðlum en aðeins er rætt við Gylfa Arnbjörnsson þegar kemur að því að lýsa viðhorfum þeirra 95% sem standa á bak við kjarasamninginn.
Allir í þessum 5% hópi lýsa yfir mikilli óáægju með gerðan samning og m.a haft eftir Arnari Hjaltalín, formanni Drífanda í Vestmannaeyjum á visi.is, „að launahækkanir samkvæmt samningnum skiptist óréttlátt niður. Þeir sem hafa lægst laun fái fæstar krónur en þeir sem hafa mest fyrir fái mestu hækkanirnar.“
Þetta er auðvitað bara rangt. Þeir sem lægstu hafa launin fá 9.750 kr. skv samningi en almenna hækkun tryggir a.m.k 8.000 kr.
Það er hins vegar rétt að hrein prósentuhækkun tryggir fleiri krónur eftir því sem laun eru hærri, en farin var blönduð leið krónutöluhækkunar og prósentuhækkunar. Það er ekkert nýtt að verið sé að semja um prósentuhækkun. Það hefur verið gert eins lengi og elstu menn muna.
Ef að kröfur þeirra sem nú tala hæst gegn þessum samningi hefðu orðið að veruleika hefðu laun þeirra sem hærri launin hækkað margfalt á við það sem samið var um.
Þeir kröfðust 7% almennrar hækkunar en við sömdum um 2,8%. Þetta hefði þýtt að 500.000 kr. laun hefðu hækkað um 35.000 kr. en ekki 14.000 kr. og 1.000.000. kr. laun hefðu hækkað um 70.000 kr. en ekki 28.000 kr. eins og gerist í samningnum sem nú hefur verið undirritaður.
Menn eru því ekki samkvæmir sjálfum sér þegar kemur að því að tala gegn þessum samningi.
Það var einnig reynt að hafa áhrif á stjórnvöld vegna þeirra skattabreytinga sem tóku gildi nú um áramótin með því að leggja fram óskir um hækkun á persónuafslætti en það gekk því miður ekki eftir. Hins vegar náðist í gegn hækkun á lægsta skattþrep sem kemur mörgum hinna lægri launuðu til góða.
Margir þeirra sem nú láta hátt saka forystu ASÍ um linkind og klifar formaður Verkalýðfélagsins á Akranesi í sífellu á að hann hefði viljað átök og fær bloggheima og fjölmiðla í lið með sér án nokkurra athugasemda. Sjávarútvegurinn sé að skila 80 milljörðum í hagnað og hægt hefði verið að sækja hærri launabætur fyrir fiskvinnslufólkið segir hann.
Hann er með öðrum orðum að segja það að verslunar- og skrifstofufólk eigi að fara í átök til þess að tryggja fiskvinnslufólki meiri launabætur en það fær sjálft.
Við vitum það öll að góð afkoma í sjávarútvegi er til komin vegna veikrar stöðu krónunnar og það hefur bitnað á öllum Íslendingum. Við hljótum því að krefjast þess að sá gengishagnaður komi til baka til allra, en ekki bara sumra.
Ef að það næst ekki með gengisstyrkingu, þá þarf að koma til aukin skattheimta á þau fyrirtæki sem njóta þessa gengishagnaðar.
Stjórnvöld höfðu því miður ekki áhuga á því og lækkuðu sérstaka auðlindagjaldið og féllu frá hækkun á virðisaukaskatti á gistingu sem kemur helst útlendingum til góða.
Það er auðvitað merkilegt að ýmsir aðilar skuli nánast einoka fjölmiðla með gagnrýni á þá sem með viðleitni sinni eru að reyna að koma hér á stöðu þar sem einstaklingur getur gengið að því sem vísu að lánið hans verði á morgun á svipuðum stað og það var í gær.
Ef að við ætlum að ná einhverjum árangri við endurreisn þessa samfélags okkar og koma okkur á þann stað þar sem við viljum vera, þá þarf að fletta ofan af þessari orðræðu sem ég vil leyfa mér að kalla lýðskrum. Þessir aðilar hafa ekkert betra að bjóða nema síður sé.
Það hefur einnig verið bent á að almenna hækkunin er undir verðbólgumælingu síðustu 12 mánaða og það er að sjálfsögðu réttmæt ábending.
Ef við hefðum hins vegar samið umfram þá verðbólgumælingu hefðum við verið að semja um viðvarandi verðbólgu og það viljum við ekki.
Með þessum samningi er verið á skuldbinda ríki, sveitarfélög og vinnuveitendur til þess tryggja að verðlagsbreytingar verði ekki meiri en sem nemur verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem er 2.5%.
Með því sláum við nokkrar flugur í einu höggi, aukum kaupmátt, tryggjum stöðugt verðlag og komum í veg fyrir miklar hækkanir á skuldum heimilanna.
Það vill enginn búa við viðvarandi 5% verðbólgu þar sem sem 20 milljóna húsnæðisskuld hækkar um milljón á ári eða um 83 þús á mánuði bara vegna verðbólgu.
Það þarf talsverða launahækkun til þess að eiga fyrir því. Er það ekki þess virði að reyna að breyta því?
Skv. öllum viðhorfskönnunum sem við gerðum óskuðu félagsmenn eftir auknum stöðugleika. Þetta er tilraun til þess að koma til móts við þær óskir.
Guðbrandur Einarsson
formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja