Hugleiðing að loknu jólafríi
Biðin óendanlega er á enda....reyndar deginum áður. Ég er komin heim í jólafrí til heimabæjar míns, Keflavíkurhverfis í Reykjanesbæ, ekki Suðurnesjabæ eða Hafnavík. Eftir langt úthald að þessu sinni, eða 11 og hálfan mánuð lenti ég loksins þann 15. desember á 11 29 flugbrautinni og leigubílaðist upp að hliði númer eitthvað í Suðurbyggingu. Ég tölti í Elko og kaupi stafla af DVD á betra verði en í Danmörku, það gildir meira að segja um Elkó utan flugstöðvar. Fyndið að tala íslensku við starfsfólk verslunar, það er eitthvað sem maður saknar. Upphæðin sem keypt er fyrir er undir tollamörkum.
Daginn eftir labba ég um og reyni að komast til botns í dýrðinni, ég er líklega í himnaríki. Það getur samt ekki staðist því ég lifði af flugið og verkfall járnbrautarviðgerðarkallanna í Danmörku. En þetta hlýtur að vera himnaríki því ég sé flatkökur, hangikjöt, Stjörnusnakk, súkkulaðirúsínur, hraunbita, Kjörís og margt margt fleira. Svona renni ég áfram í dágóða stund á bleiku skýi (slitnum svörtum skóm) þar til ég átta mig á því að ég er í raun og veru á lífi. Það sem ég hélt að væri himnaríki er þá íslensk matvörubúð, í þessu tilfelli Nettó, sem við sem eldri erum (ég er 35 ára!!) köllum held ég ennþá oft Samkaup.
Ég geri það sem hver heilvita maður sem býr í Keflavík gerir eftir tæplega ár í burtu. Fæ mér Villaborgara. Hann er ljúffengur eins og alltaf. Næstu þrjár vikur og tveir dagar áttu eftir að einkennast af þónokkru (lesist geðsjúku) skyndibitaáti. Þar stendur Daninn sig ekki vel, ekkert KFC nema einhver óætur staður í Köben og að ég held TVEIR Domino´s staðir í öllu landinu og hvorugur þeirra á Jótlandinu. Danir eru of uppteknir við að lesa vindmylluklámblöð með rúgbrauðsopnu til að byggja slíka staði.
Fyrir utan tilfinningaþrungnar stundir við að hitta vini og ættingja og sérstaklega son minn sem ég hafði ekki séð í næstum eitt ár að þá einkenndist hver mínúta af heimsókninni af mikilli gleði og endurnýjun lífskrafts og andlegs vítamíns. Áfylling á andlegu vítamínin fólst meðal annars í sér að komast loksins í íslenskan mat af öllu tagi, komast í sundlaugina og HEITU pottana (ekki þennan brandara sem Danir kalla heita potta), labba um bókabúðir og strjúka öllum þessum aragrúa titla sem komu út fyrir jólin og glugga í fræðibækurnar. Ég gæti haldið lengi áfram með þessa upptalningu en þar sem þessi grein er skrifuð í Danmörku að þá myndi ég fá of mikla heimþrá svo ég læt þetta duga.
Engir halda jól eins og Íslendingar, það er alveg á hreinu. Bæði hvað varðar skreytingar og einnig umfangið. Tilkoma Frostrósa hefur einnig ýtt hátíðleika aðventunnar á hærra plan að ég tel þar sem að tónleikar með þeim eru hluti af jólaundirbúning margra sem ég þekki heima og verða án efa hluti af mínum undirbúning þegar að ég loksins kemst aftur heim til Íslands. Í samanburði eru ekki einu sinni jól í Danmörku en vissulega er ódýrara að lýsa upp hér en þar. Við erum meiri öfgamanneskjur sem brýst fram í jólaljósauppsetningum meðal annars og ég myndi ekki vilja skipta á því og neinu öðru. Enginn vogar sér að fara út fyrir hjörðina í Danmörku, guð einn veit hvað gæti gerst.
Við erum að sjálfsögðu Íslandsmeistarar í jólaskreytingum þrátt fyrir að ég hafi reyndar greint með mínum jólaaugum smá minnkun frá jólunum 2010 sem voru nú líka held ég algert metár hvað það varðar.
Svo er nefnilega annað sem ég vildi koma að. Maður les trekk í trekk viðtöl við fólk sem komst í „himnaríki“ við að flytjast burt af Íslandi og segist ekki geta hugsað sér að koma aftur. Sjáum til eftir nokkur ár þegar að pítusósa og ídýfa ásamt lambakjötinu og Egils appelsíni er farið að kalla hátt á ykkur. Þá minnkar græni liturinn í grasinu oft á tíðum. Það er nefnilega aldrei minnst á þá sem þrá ekkert heitar en að komast heim aftur og taka þátt í uppbyggingunni af fullum krafti. Þar skal ég hins vegar svo sannarlega vera framarlega í flokki.
Margt sá maður í þessari heimsókn sem gerir Keflavík að þeim stað sem hann er, nokkuð stór bær á íslenskan mælikvarða en samt nógu lítill til að hægt sé að greina þægilegheit náungasamfélagsins. Ég kem til dæmis í sundlaugina og spyr ekki hvort að maður að nafni Jón Snæland sé kominn. Ég get spurt þau öll hvort að pabbi sé kominn og þau vita öll hver hann er. Hann er vissulega ekki með lágværustu mönnum í heimi en þið skiljið hvað ég á við. Að geta líka labbað í langflestar verslanir í bæjarfélaginu og heilsað eigendum og afgreiðslufólki með nafni eru forréttindi sem við skulum fara að átta okkur á og meta því það er ekki sjálfgefið.
Svona að endingu langar mig til að þakka þeim fjölmörgu sem gerðu heimsóknina núna um jólin ógleymanlega. Það gildir jafnt um ykkur öll og munum einnig að enginn staður á jörðinni er betri en Ísland og enginn bær er betri en Reykjanesbær, því hvað er það sem gerir bæ góðan, jú fólkið sem býr þar og þar toppar okkur enginn. Áfram við.
Sigurbjörn Arnar Jónsson
Nemi í virðiskeðjustjórnun í Horsens í Danmörku og af þriðju kynslóð Keflvíkinga sem getur ekki beðið eftir því að komast aftur til heim!!!