HS Veitur hf. - hlutverk í ljósi villandi umræðu
Í ljósi umræðunnar, sem að undanförnu hefur verið mjög villandi vilja HS Veitur hf koma eftirfarandi á framfæri.
Fyrirtækið, sem varð til 1. desember 2008 við uppskiptingu á Hitaveitu Suðurnesja hf er 66,75% í eigu Reykjanesbæjar, 16,58% í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, 15,42% í eigu Hafnarfjarðarbæjar og 1,25% í eigu 4 sveitarfélaga. Krafa um uppskiptingu var gerð með orkulögum sem samþykkt voru á alþingi í maí 2008. Þar er orkufyrirtækjum gert skylt að aðgreina framleiðsluna og dreifinguna.
Í umræðunni síðustu daga hefur verið gefið í skyn að nú geti nýir eigendur framleiðsluhluta fyrirtækisins, þ.e. HS Orku hf, hækkað gjaldskrár, þeir hafi yfirráð yfir heitu og köldu vatni og eigi auðlindina. Þetta er alrangt.
Staðreyndirnar eru þessar:
• HS Veitur hf ákveða gjaldskrá fyrir heitt og ferskt vatn og þarf staðfestingu frá iðnaðarráðuneyti til þess.
• Forgangur fyrir íbúa á orku er tryggður í samningi.
• Framleiðslufyrirtækið er skuldbundið í sama samningi til að afhenda orku til HS Veitna hf til 65 ára.
• Auðlindirnar, sem orka er unnin úr, eru í Svartsengi (í eigu Grindavíkur) og Reykjanesi (í eigu Reykjanesbæjar) og greiðir HS Orka hf sveitarfélögunum auðlindagjald fyrir afnotin.
Rekstur HS Veitna hf gekk vel á síðasta ári og skilaði reksturinn tæplega 646 milljóna króna hagnaði fyrir fjármagnsliði. Fyrirtækið greiddi út 95 milljóna króna arð til eigenda sinna sem skiptist eftir eignarhlut hvers og eins.
Nánar um hlutverk HS Veitna hf:
• Dreifa raforku sem Landsnet afhendir inn á dreifikerfið og innheimtir gjöld fyrir dreifingu og flutning raforkunnar. Að teknu tilliti til fastagjalds má áætla að 60% raforkukostnaðar sé vegna dreifingar og flutnings en um 40% raforkan sjálf sem er á samkeppnismarkaði.
• Dreifa heitu vatni á Suðurnesjum, sem framleitt er af HS Orku í Svartsengi, frá dælustöð á Fitjum (og tanki við Grindavík) og selur til einstaklinga og fyrirtækja samkvæmt gjaldskrá sem fyrirtækið setur um þjónustu sína.
• Sama gildir um ferska vatnið í Reykjanesbæ og Garði og um heita vatnið. Í Grindavík, Sandgerði og í Vogum annast HS Veitur hf vatnsöflunina en sveitarfélögin annast dreifingu og sölu innan sveitarfélaganna með eigin vatnsveitum.
• HS Veitur hf annast í Vestmannaeyjum dreifingu raforku og síðan öflun, flutning, dreifingu og sölu á heitu vatni og fersku vatni.
• HS Veitur hf annast dreifingu raforku i Hafnarfirði, Álftanesi, hluta Garðabæjar og í Árborg.
Víðir S. Jónsson kynningarstjóri.