Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

HS Orka – eignarhald og möguleikar til fjárfestinga
Laugardagur 20. apríl 2013 kl. 12:20

HS Orka – eignarhald og möguleikar til fjárfestinga

Á vef Víkurfrétta þann 9. apríl er grein eftir Ingva Þór Hákonarson þar sem komið er að málefnum HS Orku. Ég tel að ekki verði hjá komist að svara nokkrum atriðum sem þar koma fram.

Ingvi fullyrðir að það að Suðurnesjamenn ráði ekki lengur eigin orkufyrirtækjum hafi seinkað uppbyggingunni í Helguvík. Þetta er ekki á nokkurn hátt rökstutt enda stenst fullyrðingin ekki skoðun. Frá því HS Orka varð til 2008 hafa hluthafar lagt fyrirtækinu til 7,2 milljarða í auknu hlutafé með vilyrði um frekari framlög, komi til framkvæmda. Vegna þessa nýja hlutafjár stendur HS Orka vel með yfir 53% eiginfjárhlutfall en án þess væri fyrirtækið á mörkum þess að brjóta skilmála lánasamninga og þá ekki í stöðu til framkvæmda. Það er þetta nýja hlutafé sem skapar HS Orku möguleika á að ráðast í hugsanlegar framkvæmdir, náist samningar sem tryggja lágmarks arðsemi. Það er öllum held ég ljóst að engra slíkra framlaga hefði verið að vænta frá fyrri eigendum, sveitarfélögum og ríkissjóði, sem allir hafa meira en nóg með að sinna sínum skylduverkefnum. Ætla má sem dæmi að nýjar 150 MW virkjanir kosti um 60 milljarða og að eigið fé þyrfti þá að vera að lágmarki á bilinu 33–40% eða 20–24 milljarðar. Þeir tímar eru liðnir að alfarið sé unnt að fjármagna framkvæmdir eingöngu með lánsfé. Framkvæmdir af þessari stærðargráðu hefðu því ekki verið mögulegar með óbreyttu eignarhaldi. Varðandi ástæður seinkunar í Helguvík bendi ég á grein mína í Morgunblaðinu 10. apríl sem einnig má finna á heimasíðu HS Orku hf (hsorka.is)

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ingvi greinir líka frá þeirri stefnu Framsóknar að virkjanir yfir 10 MW skuli vera í eigu fyrirtækja sem a.m.k. eru að 2/3 hluta í opinberri eigu. Ljóst er að þessu ákvæði er sérstaklega beint gegn HS Orku sem er eina orkufyrirtækið sem ekki uppfyllir þessi skilyrði. Að halda því svo fram að þetta hafi engin áhrif á hugsanlega byggingu álvers í Helguvík er í besta falli barnaskapur, með slíku ákvæði væri HS Orka nánast dæmd frá verkefninu því fyrirtæki sem ekki fær virkjunarleyfi leysir ekki vandamál þeirra sem þurfa (mikla) orku. Ættu Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur (OR) að taka alfarið við verkefninu myndi það væntanlega rýra möguleikana verulega auk þess sem það hlýtur að vera spurning hvort rétt sé að slík uppbygging sé öll á ábyrgð skattgreiðenda eins og á við um rekstur Landsvirkjunar og OR. Til þess að HS Orka kæmist að 2/3 hlutum í opinbera eigu þyrfti einhver opinber aðili að verja a.m.k. 30 milljörðum til kaupa á hlutafé miðað við gengi í síðustu viðskiptum. Til þess að HS Orka gæti afhent 150 MW til álvers í Helguvík þyrfti þá einhver opinber aðili að leggja fram yfir 50 milljarða til hlutafjárkaupa og til fjárfestinga. Hverjum dettur eiginlega í hug að trúa að slíkt geti gerst við núverandi aðstæður a.m.k. 

Ingvi nefnir síðan fordæmi Norðmanna og það er rétt að þar eru svipaðar reglur í gildi. Þar voru hins vegar ekki til staðar öflug fyrirtæki í greininni sem verið var að svipta möguleika til nýtingar virkjunarkosta sem mikil vinna og fjármunir höfðu verið lagðir í. Má telja víst að slíkar reglur tækju ekki gildi án greiðslu umtalsverðra skaðabóta. Ég held að ég hafi rétt fyrir mér þegar ég segi að í Noregi voru reglurnar settar til að opna á þátttöku einkaaðila í ríkisfyrirtækjum, innan vissra marka, en ekki settar til höfuðs einu eða fleiri orkufyrirtækjum. Ástæða þess að Norðmenn vildu opna á þessa þátttöku var í meginatriðum tvíþætt. Að fá fjármagn frá einkageiranum til fjárfestinga og svo að það auðveldaði þeim að setja fyrirtækjunum skýrar reglur til að tryggja að eðlileg rekstrarsjónarmið réðu rekstrinum en ekki pólitísk afskipti sem við þekkjum allt of vel hér á landi hjá opinberu fyrirtækjunum. Þær reglur sem Framsókn setur fram um tengingu veitingu virkjunarleyfa við eignarhald eru einfaldlega of seint fram komnar, þær hefðu þurft að koma þegar öll fyrirtækin voru í opinberri eigu og forsendur fjárfesta þá ljósar.

Júlíus Jónsson

Forstjóri HS Orku hf