Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Hrunadansinn mikli
  • Hrunadansinn mikli
Föstudagur 28. mars 2014 kl. 07:40

Hrunadansinn mikli

– Gunnar Jóhannesson skrifar

Þegar ég var krakki fyrir löngu síðan þá tíðkaðist það hjá foreldrum mínum að fara rúnt með okkur krakkana á sunnudögum. Oftast var farinn bryggjurúntur, þar sem að faðir minn var sjómaður. Einnig var Sangerðishringurinn vinsæll og of stoppað hjá afa og ömmu í Garðinum. En alltaf þegar við ókum á milli Sandgerðis og Garðs fengum við að heyra sömu söguna. En sú saga var af því þegar pabbi og systkini hans þurftu að ganga frá Garði til Sandgerðis með kost handa afa og skipsfélögum hans og svo tilbaka með fisk handa heimilinu. Þetta hefur örugglega verið rosalega erfitt fyrir óharðnaða krakka að labba þetta á hverjum degi, en pabbi sagði okkur þessa sögu svo oft að við vorum eiginlega hætt að hlusta á söguna fyrir rest. Þetta var farið að hljóma eins og barlómur hjá Leifi óheppna einni af skemmtilegri persónum okkar ástsæla Ladda. Og við löbbuðum og löbbuðum og löbbuðum og löbb……

En þó að við krakkarnir hefðum fengið leið á þessari sögu var samt margt sem pabbi sagði sem að sat eftir og hjálpaði manni í gegnum lífið. Pabbi var yfirleitt gagnorður og var yfirleitt ekkert að flækja hlutina ef hann þurfti að tjá sig. Og hann átti ýmis orðatiltæki sem  fáir notuðu. Og til að hlutirnir kæmust til skila þá sagði hann ýmsa hluti oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Það sem er mér er enn í fersku minni og ég gleymi aldrei er „Þeim verður að svíða sem undir sig míga.“ Þetta sagði hann þegar hann var að kenna okkur að við yrðum að taka afleiðingunum af gerðum okkar og þá sérstaklega mistökum. Svo sagði hann líka oft „Það kemur að skuldadögunum“ en það notaði hann til að kenna okkur að ef að við tækjum peninga að láni, þá þyrfti að borga þá tilbaka.

Mér varð hugsað um það sem pabbi sagði hér í denn þegar ég var að rifja upp HRUNIÐ sem varð hér á Íslandi 2008. Fólk er farið að tala um þetta HRUN eins og talað er um tímatalið, fyrir og eftir Krist. Það er eins og allir haldi að þetta hafi verið eina og síðasta hrunið sem hefur gerst og mun dynja á okkur Íslendingum.

Því miður þá sýnist mér að við stefnum hraðbyr í næsta hrun og ef ekki verður algjör breyting á gildismati fólks og að fólk fari að taka ábyrgð á gerðum sínum þá er það óumflýjanlegt.
 
Hvað hefur gerst frá síðasta hruni? Stofnað var embætti Sérstaks Saksóknara sem eyddi 5 milljörðum fyrstu fimm árin sem  embættið starfaði. Hvað hefur það skilað miklum peningum tilbaka? Ekki miklum. Hvað eru margir sem hafa farið í Fangelsi? Ekki margir, nokkrir með einhverja smádóma. Alla vega hafa þeir gott tímakaup í steininum sem fóru þangað. Svo eru það fullt af lögfræðingum og viðskiptasnillingum sem hafa fengið vinnu hjá þrotabúum bankana til að gera þá upp. Þeir kvarta yfir mikilli vinnu en ekki laununum sem þeir hafa. Ýmsum reglum hefur verið breytt í fjármálakerfinu. Nú getur almúginn ekki fengið smá lán í sínum eigin viðskiptabanka án þess að fara í gegnum gagngerra rannsókn á fjármálum þeirra.

En hvað hefur verið gert varðandi fjármálasnillingana sem komu þessu öllu til fjandans? Ekki neitt. Það eru ennþá sömu mennirnir að stjórna fyrirtækjunum. Fyrirtækin eru aftur farin að borga bónusa eins og tíðkaðist fyrir hrun. Kennitöluflakk er enn við líði. Málaferli eru í gangi út af verðtryggingunni á lánum. Ég er ekki lögfróður maður en ég bara veit það að enginn hélt byssu yfir mér þegar ég tók þessi verðtryggðu lán sem ég tók. Ekkert efnahagskerfi getur gengið ef enginn tekur ábyrgð á gerðum sínum. Ef allir ætla sér að taka lán án þess að ætla sér að borga þau þá gengur kerfið ekki upp. Það er víst búið að stytta tímann niður í 3 ár sem menn mega ekki eiga neitt ef að þeir eru lýstir gjaldþrota. Gömlu reglunum mátti breyta eitthvað vegna þess að það þurfti bara einn kröfuhafa til þess að halda við tímanum út í það óendanlega. En er ekki 3 ár of stuttur tími? Menn gætu lagst í freistni og svíkja út einhverja stóra upphæð og láta svo gera sig upp, og svo væri allt orðið gott eftir 3 ár. Bara smá pæling.
En til að forðast annað hrun verður að skipta um hugarfar og fólk verður að taka ábyrgð af gerðum sínum. Annars stefnum við í endalausan hrunadans.

Gunnar Jóhannesson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024