Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 20. febrúar 2003 kl. 16:07

Hrói höttur í sandkassaleik

-svar Kallsins á kassanum við kostulegri grein Gunnars Örlygssonar í Suðurnesjafréttum

NÚ ÞYKIR Kallinum sem steinum sé kastað úr glerhúsi þegar Gunnar Örlygsson, sem Kallinum skilst að kalli sig „Hróa Hött“ brýst fram á ritvöllinn með skrifum sem varla eru sæmandi manni sem ætlar sér að feta hinn pólitíska veg. En Kallinum er sama, hláturinn kraumar undir niðri, jafnvel brýst fram á varir Kallsins og þeirra sem lesa greinina.
LESENDUR eru hvattir til að lesa grein Hróa sem ber yfirskriftina „Hrói Höttur – Bréf til unga fólksins“ en greinin birtist í Eyjafréttum þann 6. febrúar síðastliðinn – þar geta lesendur dæmt sjálfir skrif Hróa og framsetningu hans á helstu vandamálum þjóðarinnar og hvernig þau skuli leyst.

HRÓI HÖTTUR, hin upprennandi stjarna Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi, eins og maður getur lesið úr hans skrifum, er á villigötum. Í stað þess að svara með málefnalegum hætti gagnrýni Kallsins á greinaskrif Hróa Hattar, þá brýst hann fram á ritvöllinn með skrifum sem lýsa fátæklegri hugmyndafræði. Hér er risinn upp ungur maður sem virðist halda að sá stjórnmálaflokkur sem hann stendur fyrir sé hafinn yfir gagnrýni. Hvernig ætlar þessi ungi maður að feta sig áfram í pólitíkinni? Ætlar hann að svara með barnalegum skrifum þegar stefna F-flokksins er gagnrýnd? Kallinn vill hvetja Suðurnesjamenn til að lesa grein Hróa í Suðurnesjafréttum, því þau skrif dæma sig sjálf og manninn líka. Kæru lesendur, má ég biðja ykkur að reyna að skilja hvað Hrói á við þegar hann skrifar: „um slæma nýtingu á ungu íslensku fólki vegna hringamyndunar stórblokkanna í íslensku efnahagslífi.“ Já reynið að fá botn í þetta! Reyndar hvetur Kallinn Hróa að senda rökræna en stutta útskýringu á þessari fullyrðingu til Kallsins.

Í PISTLUM Kallsins sem birst hafa í Víkurfréttum upp á síðkastið hefur Kallinn gagnrýnt alla stjórnmálaflokka, stefnu þeirra og hugmyndafræði. Ef að Hrói kýs að halda að Kallinn sé flokksbundinn Sjálfstæðisflokknum er það hans mál, jafnvel þó Kallinn hafi verið duglegur í pistlum sínum að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn sem og aðra flokka. Og þó svo Kallinn sé ekki flokksbundinn mun hann engu að síður hæla góðum hlutum og gagnrýna slæma, hvort sem um Sjálfstæðisflokkinn eða Frjálslynda flokkinn er að ræða.

HRÓI STENDUR sjálfsagt með sand í munnvikinu eftir langa dvöl í sandkassanum þegar hann skrifar um að Kallinum súrni að ungir Íhaldsmenn skuli ekki skrifa greinar í Suðurnesjablöðin og það á kosningaári. Kallinum finnast slíkar greinar hin leiðinlegasta lesning, enda Kallinn kominn töluvert fram úr þeirra aldri. En Hrói ætti hinsvegar að skríða aftur í Sandkassann, grípa skóflu og byrja að grafa eftir stefnu Frjálslynda flokksins því Kallinum sýnist sem djúpt sé á henni.

HRÓA HETTI er greinilega umhugað um Kallinn og hans skrif. Fáfróðum mönnum ber að kenna og fræða og tekur Kallinn nú það hlutverk að sér því greinilegt er að Hrói er illa lesinn. Hrói talar um hlutdrægni Víkurfrétta með skrifum Kallsins. Hróa til upplýsingar eru nafnlaus pistlaskrif velþekkt í fjölmiðlaheiminum og þar sem slíkir pistlar birtast, er ávallt tekið fram að viðkomandi skrif lýsa ekki skoðun þess fjölmiðils þar sem pistillinn birtist. Hinsvegar er viðkomandi fjölmiðill ábyrgur fyrir skrifunum – það kallast ábyrgur fjölmiðill. Kallinn er ekki á launaskrá Víkurfrétta, en spurning hvort F-flokkurinn vilji ráða Kallinn sem pólitískan penna því miðað við grein Hróa virðist sem þörf sé að því.

Í LOK greinar sinnar kallar Hrói eftir því að hann verði boðaður í viðtal þar sem hann hyggst lýsa stefnumálum Frjálslynda flokksins. Gott og vel – hafðu samband við blaðamenn og ritstjóra Víkurfrétta. Það er ekki í valdi Kallsins að bóka viðtöl hjá Víkurfréttum. Það er ritstjórnarinnar að ákveða slíkt.



HRÓI HÖTTUR hefur nýhafið þrautagöngu í hinni pólitísku fjallgöngu og hann ætti að líta upp til hugsjóna sér eldri manna og hafa orð skáldsins Tómasar Guðmundssonar í huga þegar hann þykist langt kominn á hinn pólitíska fjallstopp:

„Því hversu mjög sem mönnum finnast,
fjöllin há, ber hins að minnast,
sem vitur maður mælti forðum
og mótaði í þessum orðum,
að eiginlega er ekkert bratt,
aðeins mismunandi flatt.“


AÐ LOKUM vill Kallinn fullvissa lesendur um að pistlar hans munu halda áfram að birtast í Víkurfréttum. Þar mun Kallinn halda áfram að gagnrýna og hrósa öllum mögulegum hlutum. Hrói Höttur og flokkur hans verður þar ekki undanskilinn. Og að sjálfsögðu ekki aðrir flokkar.

Í BLÁLOKIN vill Kallinn benda Hróa á auglýsingar sem birst hafa í fjölmiðlum þar sem stjórnmálaskólar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar eru auglýstir. Kannski ráð fyrir Hróa að sækja um!

Kveðja, [email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024